Vill „nýtt samband“ við Bandaríkin

Kim Jong-un og Trump á samsettri mynd.
Kim Jong-un og Trump á samsettri mynd. AFP

Norðurkóreskur ríkisfjölmiðill vonast til þess að landið muni „efna til nýs sambands“ við Bandaríkin. Hingað til hafa ríkisfjölmiðlar í Norður-Kóreu talað illa um Bandaríkin og því er um nýjan tón að ræða í samskiptunum, enda munu þeir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, funda í Singapore á morgun.

Trump sagði á Twitter að frábært væri að vera kominn til Singapore og að spenna væri í loftinu.

Forsetinn vonast til að fundurinn verði til þess að Norður-Kórea hefji afvopnunarferli sitt á kjarnavopnum.

Lítið hefur verið greint frá fundi Kims og Trumps í fjölmiðlum í Norður-Kóreu undanfarna daga en í  norðurkóreska ríkisfjölmiðlinum Rodong Sinmun var staðfest að Kim væri kominn til Singapore til að hitta Trump.

Þar kom einnig fram að „við munum efna til nýs sambands vegna þess að nýir tímar krefjast þess“," að sögn BBC

Einnig kom fram í fjölmiðlinum að skipst verði á skoðunum á fundinum með því takmarki að „efna til langvarandi og friðsamlegs stjórnarfars á Kóreuskaganum til að hægt sé að leysa sameiginleg vandamál, þar á meðal afvopnun á Kóreuskaganum“.

„Jafnvel þótt þjóð hafi átt fjandsamleg samskipti við okkur í fortíðinni er okkar skoðun að ef þjóð virðir sjálfstæði okkar...munum við reyna að bæta samskiptin með því að tala saman,“ segir í fjölmiðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert