Norðurkóreskir fjölmiðlar þöglir

Norður-Kóreubúar hafa enn ekki fengið veður af sögulegum fundi þeirra …
Norður-Kóreubúar hafa enn ekki fengið veður af sögulegum fundi þeirra Kim Jong-un og Donald Trumps. AFP

Þrátt fyrir að fátt annað hafi verið fjallað um í fjölmiðlum víða um heim í dag en fund þeirra Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur ekki verið minnst einu orði á fundinn í heimalandi Kim, Norður-Kóreu.

Fjölmiðlar ríkisins, sem sæta gríðarlega ströngu eftirliti, hafa að öllu hundsað fundinn sögulega. Allir fjölmiðlar Norður-Kóreu eru ríkisreknir og tíðkast það að fjallað er um atburði daginn eftir að þeir eiga sér stað. Vænta má að þessi regla eigi einnig við um fund morgunsins en þangað til þarf norðurkóresk alþýða að sitja alls óviss um þennan atburð sem kann að hafa meiri áhrifa á einmitt íbúa Norður-Kóreu en nokkurs annars lands í heiminum.

Norðurkóreskir fjölmiðlar sæta gífurlega ströngu eftirliti.
Norðurkóreskir fjölmiðlar sæta gífurlega ströngu eftirliti. AFP

Samkvæmt CNN bárust Norður-Kóreubúum í dag fréttir af þjóðhátíðardögum Rússlands og Fillipseyja í stað fundarins. Samt sem áður fjallaði norðurkóreska fréttastofan KNCA um ferðir leiðtoga þjóðarinnar og greindi frá því að hann væri kominn til Singapore.

Norðurkóresk stjórnvöld stjórna fjölmiðlum ríkisins harðri hendi og íbúar eru oft beittir gífurlega hörðum refsingum fyrir að skoða fjölmiðla sem eru ekki viðurkenndir af yfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert