Norskur kokkur sigrar í Bocuse d'Or

Christian André Pettersen og lið hans fagna ógurlega í Tórínó …
Christian André Pettersen og lið hans fagna ógurlega í Tórínó þegar úrslitin lágu fyrir nú um kvöldmatarleytið. AFP

Lið norska kokksins Christian André Pettersen fór rétt í þessu með sigur af hólmi í alþjóðlegu matreiðslukeppninni Bocuse d'Or en sannarlega má segja að Skandinavíuþjóðirnar hafi komið séð og sigrað í keppninni, sem að þessu sinni fór fram í ítölsku borginni Tórínó, því Svíar og Danir fylgdu fast á hæla nágranna sinna og tóku annað og þriðja sætið en til að kóróna það enn frekar höfnuðu Finnar í 4. sæti. Íslenska liðið, með Bjarna Siguróla Jakobsson við stjórnvölinn, hreppti 9. sæti.

Þar með er ljóst að bestu kokkar þessara þjóða, og fleiri, munu etja kappi á heimsmeistaramótinu í Lyon í Frakklandi í janúar 2019 en Bocuse d'Or er eins konar Evrópumeistaramót keppninnar.

„Það var ótrúlegt að heyra tilkynninguna [um sigurinn], fyrir þetta höfum við lagt mikið á okkur,“ sagði Pettersen í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK, en bætir því við að þetta sé bara byrjunin. Lið hans muni fagna í kvöld en á morgun hefjist undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið með járnaga.

Pettersen kemur frá Bodø í Norður-Noregi og notaði meðal annars rammnorskar möndlukartöflur þaðan við rétti þá er hann bar á borð fyrir dómnefnd Bocuse d'Or.

Tuttugu þátttakendur börðust um sigurinn í Tórínó eins og vefsíða ABC Nyheter greinir frá en Pettersen starfar sem yfirkokkur á veitingastaðnum Mondo í Sandnes í Rogaland.

Norðmenn hafa einu sinni áður fagnað sigri í Bocuse d'Or, en það var þegar núverandi Michelin-kokkurinn Bent Stiansen stóð með pálmann í höndunum fyrir 25 árum, 1993. Norski matarvefurinn godt.no tekur saman ýmis brot úr sögu Norðmanna í keppninni og greinir þar enn fremur frá því að Christopher W. Davidsen hafnaði í öðru sæti á heimsmeistaramótinu í fyrra en hvor tveggju mótin, Bocuse d'Or og heimsmeistaramótið, eru haldin annað hvert ár.

Úrslitin í Tórínó í dag, þessi tíu lið voru efst og keppa á HM í Lyon í janúar. Norðurlandabúar hafa aldeilis galdrað upp úr pottunum eins og sjá má:

1. Noregur

2. Svíþjóð

3. Danmörk

4. Finnland

5. Frakkland

6. Belgía

7. Sviss

8. Ungverjaland

9. Ísland

10. Bretland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert