Ráðgjafi Trumps fékk hjartaáfall

Donald Trump ásamt Larry Kudlow í síðasta mánuði.
Donald Trump ásamt Larry Kudlow í síðasta mánuði. AFP

Larry Kudlow, helsti efnahagsráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, fékk „mjög vægt“ hjartaáfall og liggur nú á hersjúkrahúsi rétt fyrir utan Washington.

Trump og Hvíta húsið greindu frá þessu.

„Hinn frábæri Larry Kudlow, sem hefur lagt mjög hart að sér vegna viðskiptamála og efnahagsins, fékk hjartaáfall,“ skrifaði Trump á Twitter, skömmu áður hann fundaði með Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu í Singapore. „Hann er núna í Walter Reed-sjúkrahúsinu.“

Í yfirlýsingu Hvíta hússins sagði að Kudlow, sem er sjötugur, hafi fengið „mjög vægt“ hjartaáfall.

Þar kom fram að ástand hans væri gott og að læknarnir búist við því að hann eigi eftir að ná sér að fullu.

Stutt er síðan Kudlow sagði eftir fund Trump með leiðtogum hinna G7-ríkjanna að Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, hefði stungið Bandaríkin í bakið á fundinum.

Larry Kudlow í apríl síðastliðnum.
Larry Kudlow í apríl síðastliðnum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert