Rodman tilfinningaríkur

Þeir Dennis Rodman og Kim Jong-un eru miklir mátar.
Þeir Dennis Rodman og Kim Jong-un eru miklir mátar. AFP

Tilfinningarnar ætluðu að bera körfuboltastjörnuna Dennis Rodman ofurliði þegar hann ræddi við fréttamann CNN um fund þeirra Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, og Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Rodman fór til Singapore til að verða vitni að fundinum en leiðtogarnir tveir eru báðir góðir vinir hans. Með hina víðfrægu „Make America Great Again“-derhúfu á höfðinu átti Rodman bágt með að halda aftur af tárunum þar sem hann ræddi um þennan sögulega fund sem hann sagði hafa verið í bígerð árum saman. „Þetta er frábær dagur. Ég er hér til að sjá hann. Ég er svo hamingjusamur.“

Rodman hefur verið ötull talsmaður þess að koma leiðtogunum saman og lýsti í viðtalinu hvernig hann missti aldrei trúna á að hjálpa Norður-Kóreu. „Þegar ég kynntist menningunni og aðstæðunum, leið mér eins og ég væri heima,“ sagði hann um heimsóknir sínar til þessa einangraðasta lands í heimi.

Rodman segist ekki vilja hugsa um pólitískar hliðar málsins. „Ég vil ekki sjá það, ég vil sjá það hverfa [...] ég vil sjá okkur koma saman. Takast í hendur, brosa og fá okkur íste saman. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu stríðsdóti, ég veit ekkert um það,“ sagði hann við CNN.

Rodman hrósaði Trump einnig innilega fyrir viðleitni hans til fundarins. Hann segir að honum hafi áður verið hótað fyrir að taka upp hanskann fyrir Norður-Kóreu og að Trump eigi heiður skilið fyrir að „fara út fyrir kassann og láta þetta gerast“. Þá segir Rodman sig hafa reynt að ná til Barack Obama fyrrverandi Bandaríkjaforseta en að hann hafi ekki viljað gefa sér tíma til að ræða við sig.

Rodman hefur mikla trú á að endanlega sátt náist og segir að ekki þurfi kraftaverk til. „Við þurfum bara að halda öllum dyrum opnum svo við getum byrjað uppá nýtt og gert heiminn betri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert