Sáttir leiðtogar en lítill árangur eftir fundinn í Singapore

Leiðtogarnir lofuðu hvor öðrum og árangri fundarins þó svo að …
Leiðtogarnir lofuðu hvor öðrum og árangri fundarins þó svo að ekki sé á miklu að taka. AFP

Þrátt fyrir einar umtöluðustu viðræður aldarinnar og ótal hlý orð til hvors annars er óvíst hvað nákvæmlega Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un leiðtogi Norður-Kóreu komu sér saman um á sögulegum fundi þeirra snemma í morgun.

Þetta var í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna fundaði með leiðtoga Norður-Kóreu og eftir handabönd, málsverð og samtöl skrifuðu leiðtogarnir tveir undir sáttmála sín á milli. Það er þó afar óljóst hvað nákvæmlega kemur fram í sáttmálanum og ekki síst hvaða leiðum leiðtogarnir tveir ætla að beita til þess að ná fram þeim markmiðum sáttmálans sem þó hafa verið tilgreind á blaðamannafundum í Singapore í dag.

Bandaríkin hafa áður reynt að semja um afkjarnorkuvopnavæðingu við Norður-Kóreu. Bæði árið 1994 fyrir tilstilli Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta og svo aftur árið 2007 þegar sex lönd; bæði Kóreuríkin, Bandaríkin, Japan, Kína og Rússland skuldbundu sig til þess að afkjarnorkuvopnavæða Kóreuskagann. Samningarnir voru þó báðir skammlífir og kjarnorkuhætta Norður-Kóreu hefur aðeins aukist á síðustu árum.

Það er því afar óljóst hvert framhaldið af fundinum í dag kann að vera og hvort að einhver tiltækur árangur hafi náðst fyrir utan það að koma leiðtogunum tveimur saman.

Mikill vængjasláttur en enginn árangur

Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og aðjúnkt við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands segir að niðurstaða fundarins hafi ekki komið sér á óvart. „Þetta var það sem maður bjóst við, mikill vængjasláttur en lítið sem kemur út úr þessu.“

Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur.
Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur. Árni Sæberg

Silja bendir á að þó svo að fyrri samningar landanna hafi ekki verið langlífir, voru enn færri og minni skuldbindingar í sáttmála morgunsins. Ekkert markvisst virðist vera fyrir hendi annað en fyrirheit um áframhaldandi samninga sem þó gætu á endanum skilað einhverjum skýrum markmiðum og áætlunum.

Þó svo að Trump hafi virst kampakátur á blaðamannafundum í dag og sagt að miklum árangri hafi verið náð er óljóst hvaða árangur nákvæmlega hann er að tala um fyrir utan það skref að hafa hitt kollega sinn í fyrsta sinn eftir ákaflega stirð samskipti þeirra á milli það sem af er af forsetatíð hans.

„Þetta er í raun frekar yfirlýsing en samningur. Það eru engar skuldbindingar fyrir Norður-Kóreu og engin tímalína eða skýr áætlun um afkjarnorkuvopnavæðingu. Það eru heldur engin fyrirheit um eftirlit af hálfu Bandaríkjanna og ekkert sem segir okkur að Norður-Kórea þurfi í raun að gera eitthvað.“

Kim Jong-un, leiðtogi Norður Kóreu og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Kim Jong-un, leiðtogi Norður Kóreu og Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Norður-Kórea gæti grætt

Þó svo að mergur málsins á fundinum hafi einungis verið að ítreka fyrri loforð er tryggasta haldreipi alþjóðasamfélagsins loforð um áframhaldandi viðræður og samninga. Norður-Kórea vann stóran sigur í morgun með fundinum einum og sér. Strax í dag barst sá möguleiki í tal að Norður-Kórea gæti komið á fót milliríkjaviðskiptum við nágrannaríki og vesturlönd án þess þó að hafa lofað nokkru á fundinum um að draga úr kjarnorkuvopnaframleiðslu.

„Það var mikill sigur að hitta Bandaríkjaforseta í morgun. Kim hefur einnig verið að hitta aðra valdamenn undanfarið sem gæti bent til þess að Norður-Kóreumenn séu að reyna að fá eitthvað út úr þessum fundum.“ segir Silja. Þegar Norður-Kórea hefur áður samið við Bandaríkin fór flæði fjármagns að streyma til landsins sem var svo skrúfað fyrir þegar í ljós kom að ríkið hafði í raun og veru ekki hætt þróun kjarnavopna. Ef til vill eru Norður-Kóreu menn að leika svipaðan leik í þetta skiptið þó svo að það sé ekkert enn sem staðfestir það.

Ávinningur Trump

Þó svo að margir hafi hrósað Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir að hafa komið fundi þeirra Kim í kring telur Silja það ólíklegt að fundurinn muni auka vinsældir hans til muna. Í ljósi athæfis hans á nýlegum fundi G7 ríkjanna þar sem hann þótti að margra mati koma ókurteisilega og óskynsamlega fram, er ólíklegt að fylgi hans muni aukast eftir fund hans með Kim.

„Hann mun frá mikið hylli frá sama hópi og hann hefur notið stuðnings frá síðan fyrir kosningarnar. Aðrir munu benda á að fyrri samningar náðu alveg jafn langt en höfðu þó mikið skýrari markmið og ef til vill bera yfirlýsingu hans og Kim saman við kjarnorkusamning Bandaríkjanna við Íran. Að mati Trumps er sá samningur sá versti frá upphafi. Þó fólst í honum skuldbinding beggja aðila og skýr og greinileg markmið.“

Óvíst er hvað ávinnst með sáttmálanum sem Kim og Trump …
Óvíst er hvað ávinnst með sáttmálanum sem Kim og Trump undirrituðu í morgun. AFP

Innihald í samræmi við vinnu

Silja bendir á að fyrir fundinn hafi Trump sagt að hann hafi ekki þurft að undirbúa sig neitt að ráði fyrir fundinn. Hann hafi einfaldlega ætlað að lesa í framkomu Kim og spila þetta eftir tilfinningunni.

„Það var lítil vinna lögð í samninginn og innihaldið í samræmi við það þrátt fyrir allt púðrið sem fór í undirbúning fundarins. Fundurinn var þó gríðarnauðsynlegur til þess að draga úr spennu sem Trump sjálfur keyrði upp. Hann er eins og slökkviliðsmaður sem kveikir eigin elda og vill svo fá hrós fyrir að slökkva þá.“

Að lokum segir Silja að það eina sem maður geti vonast eftir er að leiðtogarnir komi báðir til með að sýna þolinmæði í framhaldinu og á endanum komi svo fram skýr markmið sem setji hlutina í fastar skorður. Fundurinn í morgun og ávöxtur hans mun engan veginn vera nóg.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert