Tekjur Ivönku og Kushner opinberaðar

Ivanka Trump og eiginmaður hennar Jared Kushner.
Ivanka Trump og eiginmaður hennar Jared Kushner. AFP

Bandarískir fjölmiðlar hafa nú greint frá því að innkoma forsetadótturinnar Ivönku Trump og eiginmanns hennar Jared Kushner hafi verið að minnsta kosti 83 milljónir bandaríkjadala eða tæpir níu milljarðar íslenskra króna fyrsta ár þeirra sem ólaunaðir ráðgjafar Bandaríkjaforseta. Er því aðeins um að ræða tekjur að öllu ótengdum Hvíta Húsinu.

Tekjustofnar hjónanna eru meðal annars hin víðfrægu hótel Trump fjölskyldunnar, fatamerki Ivönku og fasteignaviðskipti Kushner í New Jersey og öðrum fylkjum Bandaríkjanna. Samkvæmt skýrslu Washington Post  voru eignir Kushner metnar á allt að 735 milljónir bandaríkjadala árið 2017 eða tæplega 78 milljarða íslenskra króna.

Þrátt fyrir trúnaðarstöður sínar í Washington hafa hjónin haldið gríðarlegum fjárfestingum og viðskiptum á bandarískum fasteignamarkaði áfram eftir kjör Donalds Trump til embættis Bandaríkjaforseta haustið 2016.

Vefur BBC greinir frá því að margir hafi bent á að stríður straumur utanaðkomandi fjármagns til þeirra hjóna sé á siðfræðilega gráu svæði og sömuleiðis að hættan á hagsmunarárekstri við opinber störf þeirra sé gríðarleg. Peter Mirijanian, talsmaður lögmanns parsins, Abbe Lowell, segir þó að bæði hafi þau þó fylgt öllum siðgæðisreglum bandarísks stjórnkerfisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert