Trump segir Kim vera „hæfileikaríkan“

Donald Trump var tregur til að kalla Kim Jong-un annað …
Donald Trump var tregur til að kalla Kim Jong-un annað en hæfileikaríkan. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist vera einkar sáttur með sögulegan fund hans og leiðtoga Norður-Kóreu, Kim Jong-un sem endaði með sameiginlegum sáttmála þeirra. Fundurinn markaði mikil vatnaskil þar sem sitjandi forseti Banadaríkjanna hefur aldrei áður fundað með leiðtoga Norður-Kóreu.

Líkt og mbl.is hefur áður greint frá kemur fram í sáttmálanum umtalaða að Kim hyggst afkjarnorkuvopnavæða Kóreuskagann. Trump sagði svo síðar að Bandaríkin myndu fresta heræfingum sínum sem hafa reitt Norður-Kóreumenn til mikillar reiði upp á síðkastið. Enn fremur sagði Trump við blaðamenn eftir fundinn að hann vilji draga herlið sitt til baka frá Suður-Kóreu, þar sem herinn hefur verið í viðbragðsstöðu.

Það má með sanni segja að samskipti þeirra félaga hafi tekið skarpa beygju með fundinum en ekki er langt um liðið síðan ógnvænlegar hótanir fóru þeirra á milli. Á fundinum í morgun tókust þeir þó í hendur, ræddu málin og snæddu hádegisverð með ráðgjöfum sínum. Tilefni fundarins var fyrst og fremst vonir um afkjarnorkuvopnavæðingu og að draga úr þeirri gífurlegu spennu sem tíðkast hefur á milli ríkjanna tveggja að undanförnu.

Þrátt fyrir þennan sögulega fund eru margir sem benda á innihaldsleysi sáttmálans og þá sérstaklega að hvergi kemur fram hvernig meint afkjarnorkuvopnavæðing Kims á Kóreuskaga eigi að fara fram.

Fjölmargir blaðamenn spurðu Trump eftir fundinn hvort hann hafi borið ítrekuð mannréttindabrot í Norður-Kóreu undir Kim. Trump svaraði játandi en sagði svo að hann kalli kollega sinn ekki annað en hæfileikaríkan. „Hann er mjög hæfileikaríkur [...] Ég sagði ekki að hann væri góður“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert