Vonast til að Kóreustríðinu ljúki

Donald Trump á blaðamannafundi eftir fundinn með Kim Jong-un.
Donald Trump á blaðamannafundi eftir fundinn með Kim Jong-un. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti vonast til að Kóreustríðinu ljúki fljótlega. Þetta sagði hann á blaðamannafundi að loknum viðræðum sínum við Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

„Núna getum við bundir vonir við að því ljúki fljótlega og það mun gera það,“ sagði Trump en stríði Norður- og Suður-Kóreu á árunum 1950 til 1953 lauk með vopnahléi en ekki friðarsáttmála.

Trump sagðist einnig hafa rætt mannréttindamál við Kim og að norðurkóreski leiðtoginn hafi lýst yfir vilja til að eyðileggja eldflaugatilraunastað landsins.

„Við ræddum þau í dag, ákaft,“ sagði Trump um mannréttindin. „Við ætlum að gera eitthvað í þessu. Ástandið er slæmt. Það er slæmt á mörgum stöðum.“

Forsetinn bætti við að viðræðurnar við Kim hafi verið „heiðarlegar, beinskeyttar og árangursríkar“.

Trump sagði að refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu séu enn í gildi en vonast til að þeim verið aflétt eins fljótt og mögulegt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert