Fyrrverandi njósnari eða atvinnupólitíkus?

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti hétu því ...
Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti hétu því eftir leiðtogafund sinn í Singapúr í gær að vinna að afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Donald Trump Bandaríkjaforseti hétu því eftir leiðtogafund sinn í Singapúr í gær að vinna að afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga. Sérfræðingar í málefnum Norður-Kóreu velta því nú fyrir sér hvern Kim muni velja til að ræða málin við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, enda þykir það líklegt til að gefa frekari vísbendingar um tóninn sem kann að verða í viðræðum.

Mun hann velja harðlínumanninn og fyrrum njósnaforingjann Kim Yong Chol eða atvinnudiplómatinn utanríkisráðherrann Ri Yong Ho, sem þykir öllu stimamýkri?

Kim og Trump fóru ekki út í nánari útlistanir eftir fund sinn, en sögðust sammála um að viðræður yrðu haldnar við fyrsta tækifæri og að Pompeo muni leiða þær fyrir hönd Bandaríkjanna. Ekki var hins vegar tilgreint hver muni leiða viðræðurnar fyrir hönd Norður-Kóreu, aðeins að það yrði „viðeigandi hátt settur embættismaður“.

Reuters segur þá lýsingu geta átt við örfáa einstaklinga sem Kim treysti nógu vel, en að þeir Kim Yong Chol og Ri Yong Ho sem báðir fylgdu honum til Singapúr séu hvað líklegastir. Báðir hafi þeir ennfremur tekið þátt í viðræðum sendinefndanna tveggja.

„Sú staðreynd að ekki var neitt norðurkóreskt nafn nefnt í yfirlýsingunni kann að benda til þess að Kim sé enn ekki búinn að gera upp  hug sinn,“ segir Shin Beom-chul, sérfræðingur við Asan stjórnmálastofnunina í Seoul.

Harðlínumaðurinn Kim Yong Chol hefur hitt Trump og Pompeo og ...
Harðlínumaðurinn Kim Yong Chol hefur hitt Trump og Pompeo og er annar tveggja sem er talinn líklegur til að stýra frekari viðræðum. AFP

Leyniþjónustumaður tengdur tölvuárásum á Sony

Kim Yong Chol er 72 ára hershöfðingi og formaður stjórnar Verkamannaflokksins í Norður-Kóreu. Hann er enn fremur formaður þeirrar deildar sem sér um samskipti Kóreuríkjanna fyrir hönd Norður-Kóreu.

Hann hitti Trump í Washington í maí og hefur fundað með Pompeo fjórum sinnum. „Kim ætti að vera sá sem væri hvað líklegastur til að funda með Pompeo þar sem hann hefur unnið með honum áður og veit auk þess vel hvað Kim Jong-un vill,“ segir Cheong Seong-chang, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu við Sejong stofnunina.

Þá býr hann að tæplega 30 ára reynslu af leyniþjónustustörfum og var m.a. um tíma yfirmaður við helstu njósnastofnunnar landsins.  Kim rataði raunar á viðskiptabannslista bandarískra og suðurkóreskra yfirvalda 2010 og 2016 fyrir að styðja vopnaáætlun Norður-Kórea. Þá sökuðu stjórnvöld í Suður-Kóreu hann um að standa að baki mannskæðri árás á suðurkóreskt herskip 2010 og eins var hann tengdur tölvuárásum á Sony Pictures 2014.

„Hann er þekktur sem harðlínumaður, rétt eins og Pompeo er í Washington. Báðir eru þeir hins vegar raunsæismenn sem geta gert málamiðlanir reynist þess þörf,“ segir Cheong.

Ri Yong Ho (t.v.) mætti með Kim Jong-un til Singapúr. ...
Ri Yong Ho (t.v.) mætti með Kim Jong-un til Singapúr. Hann þykir stimamjúkur atvinnudiplómat. AFP

Kallaði Trump „forseta illskunnar“

Ri Yong Ho er hins vegar talinn öllu stimamýkri, kurteis diplómat sem á auðvelt með að tjá sig. Hann getur þó líka verið harður samningamaður.

Hann kallaði Trump „forseta illskunnar“ á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrra og þykir slíkt málfar ekki lýsandi fyrir hann. Ri, sem er 62 ára, talar ensku reiprennandi og hefur gegnt fjölda hátt settra embætta sem krefjast samskipta við Vesturlönd. Hann hefur m.a. átt þátt í fyrri afvopnunarviðræðum fyrir hönd Norður-Kóreu.

„Það væri skynsamlegt að láta utanríkisráðherra sem hefur jafn mikla reynslu stjórna viðræðum um afvopnun kjarnavopna,“ segir “ Chun Yung-woo, sem átti sæti fyrir hönd Suður-Kóreu í fyrri afvopnunarviðræðum.

Þriðji kandídatinn er svo fyrrverandi utanríkisráðherrann, hinn 78 ára gamli Ri Su Yong, sem nú sér um alþjóðamál fyrir flokkinn.

Hann hafði yfirumsjón með þeirri menntun sem leiðtoginn fékk sem barn í Evrópu er hann var sendiherra í Sviss, og öðlaðist þar með traust hans.

Sérfræðingar telja hina tvo þó líklegri kandídata, en eru sammála um að hver sem sitja muni við samningaborðið þá verði það Kim sem taki lokaákvörðunina.

mbl.is
Mynd eftir Ásgrím Jónsson
Til sölu olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson, Húsafell, Uppl. í s. 772-2990 eða á ...
Bókaveizla
Bókaveizla Hjá Þorvaldi í Kólaportinu 30% afsláttur af bókum í janúar Opið lauga...
KRISTALS LJÓSAKRÓNUR Útsala er að byrja
Glæsilegar kristalsljósakrónur í falleg heimili. Handskornar kristalsljósakrónu...
Handlaug með blöndunartækjum og festingu.
Notuð handlaug til sölu með blöndunartækjum og festingu á vegg. kr. 3 þúsund kr...