Vilja að móðirin borgi 1,2 milljónir fyrir fæðingu

Fæðingartúrismi er sagður vaxandi iðnaður í Kanada. Mynd úr safni.
Fæðingartúrismi er sagður vaxandi iðnaður í Kanada. Mynd úr safni. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Kanadískur spítali hefur farið í mál við konu, sem ekki er búsett í Kanada, en sem fæddi barn á spítalanum. Krefst spítalinn þess að konan greiði 1,2 milljónir kanadískra dollara (tæpar 100 milljónir íslenskra króna) fyrir að hafa stungið án þess að greiða sjúkrahúskostnaðinn eftir fæðinguna.

Heilbrigðisyfirvöld í Vancouver segja að konan, Yan Xia, hafi fætt barn á Richmond sjúkrahúsinu árið 2012 en hafi aldrei greitt reikninginn.

Málið var höfðað í apríl sl. en hvorki Yan né lögfræðingar hennar hafa svarað fyrirspurnum réttarins að því er BBC greinir frá.

Svo nefndur „fæðingartúrismi“ er vaxandi iðnaður í Vancouver fyrir mæður sem vilja að börn þeirra öðlist kanadískan ríkisborgararétt.

Dómskjöl sem heilbrigðisyfirvöldin hafa lagt fram fullyrða að Yan hafi samþykkt að greiða það gjald sem aðrir en íbúar Kanada greiða fyrir heilbrigðisþjónustu, sem og 2% vexti á mánuði fyrir ógreiddra reikninga.

Ferðaskrifstofur sem höfða til foreldra

Kostnaðurinn við fæðinguna nam 313.000 Kanada dollurum þegar sjúkrahúsið sendi Yan reikninginn í október 2012. Nú vill spítalinn fá reikninginn greiddan með vöxtum og útlögðum kostnaði.

Í grein sem birtist í dagblaðinu Vancouver Sun árið 2016 segir að margar kínverskar konur kjósi að fæða á Richmond sjúkrahúsinu svo að börn þeirra geti öðlast kanadískan ríkisborgararétt. Á árabilinu frá 2010 til 2016 fjölgaði fæðingum þeirra sem ekki eru búsettir í Kanada úr 18 í 339 á spítalanum.

Er fjöldi „fæðingarhúsa“ sagður hafa sprottið upp á Richmond svæðinu þar sem að vanfærar konur geta búið. Eru ferðaskrifstofur þá sagðar auglýsa þjónustu fyrir foreldra sem vilja að börn þeirra fæðist í Kanada.

„Sumir halda að það muni gera þeim auðveldara um vik að fá að vera um kyrrt,“ segir innflytjendalögfræðingurinn Steven Meurrens. „Flestir gera það hins vegar svo börn þeirra fái ríkisborgararétt.“

Fjöldi íbúa Richmond ljáðu nafn sitt undirskriftalista sem sendur var á stjórnvöld í mars á þessu ári, þar sem þau voru hvött til að taka á „fæðingatúrismanum“.

Ólétta er ekki gild ástæða fyrir því að banna konum að koma til landsins að sögn kanadísku landamærastofnunarinnar.

Í leiðbeiningum til landamæravarða er þeim hins vegar bent á að spyrja þær vanfæru konur sem þangað komi sem ferðamenn hvort að þær hafi næga fjármuni til að geta greitt fyrir sjúkrahúsakostnað, eignist þær barnið meðan þær dvelja enn í Kanada. Er sá kostnaður yfirleitt sagður vera um 8-12.000 Kanada dollarar. Óvæntir fylgikvillar eru hins vegar sagðir hafa komið upp í fæðingu Yan, sem er ástæða þess að reikningur hennar var svo hár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert