Vonast eftir afvopnun fyrir árslok 2020

Trump segir ekki lengur stafa kjarnorkuógn af Norður-Kóreu.
Trump segir ekki lengur stafa kjarnorkuógn af Norður-Kóreu. AFP

Bandaríkin binda vonir við að meiriháttar afvopnun kjarnavopna muni eiga sér stað fyrir lok ársins 2020, að sögn Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Hann ræddi við blaðamenn í Suður-Kóreu í dag, degi eftir sögulegan fund Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Á fundinum komust þeir að samkomulagi um að vinna að afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga.

Það hefur hins vegar verið gagnrýnt að ekki hafi verið gefið upp með hvaða hætti og hvenær Norður-Kórea ætlaði að losa sig við vopnin.

Pompeo ræddi um niðurstöðu fundarins og sagði að það væri enn mikil vinna eftir í sambandi við Norður-Kóreu. Hann sagðist þó vonast til að meiriháttar afvopnun myndi eiga sér stað innan tveggja og hálfs árs. Hann sagði sagðist þess fullviss að stjórnvöld í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, gerðu sér grein fyrir mikilvægi staðfestingar eða sönnunar á því að verið væri að vinna að afvopnavæðingu.

Trump skrifaði sjálfur færslu á Twitter í dag þar sem hann sagði Norður-Kóreu ekki lengur vera kjarnorkuógn. Fólk ætti því að finna til meira öryggis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert