Fordæmalaus öryggisgæsla á HM

AFP

Rússneska lögreglan undirbýr sig nú fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem hefst í dag. Um 1.900 öryggismyndavélar hafa verið settar upp á Kaliningrad-vellinum en leikur Króata og Nígeríu fer fram á laugardagskvöldið á vellinum.

Með nýjustu andlitsgreiningartækni getur rússneska lögreglan séð hvort að viðkomandi einstaklingur sé í gagnagrunni lögreglunnar á örfáum sekúndum. Svipuð kerfi hafa verið sett upp á öðrum völlum í Rússlandi fyrir mótið.

„Til að sporna við hryðjuverkum mun kerfið hjálpa okkur að finna grunaða einstaklinga,“ segir Sergei Evstigneev frá ríkisstjórninni í Kaliningrad í samtali við BBC. „Kerfið leyfir lögreglunni að fylgjast með þeim og bregðast fljótt við hvaða aðstæðum sem koma upp,“ bætir Sergei við.

En öryggismyndavélar eru eingöngu fyrsta varnarlínan. Rússneska lögreglan hefur æft stíft undanfarið til að bregðast við öllum mögulegum uppákomum á HM. Í einni æfingunni hoppaði sérsveit rússnesku lögreglunnar úr fallhlíf á fótboltavöllinn til þess að bregðast við mögulegri gíslatöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert