Foreldrar handteknir eftir DNA-rannsókn

Stúlkan var jörðuð í ónefndri gröf, en fjölmiðlar nefndu hana …
Stúlkan var jörðuð í ónefndri gröf, en fjölmiðlar nefndu hana „Litla píslarvotturin á A10“. Það var ekki fyrr en nýlega sem tókst að bera kennsl á hana. AFP

Franska lögreglan hefur handtekið par, 31 ári eftir að limlest lík dóttur þeirra fannst við hraðbraut í miðhluta Frakklands árið 1987. Nýleg rannsókn á DNA-gögnum leiddi til handtökunnar.

Lík stúlkunnar, sem ekki var borið kennsl á fyrr en nýlega, fannst við hraðbraut í nágrenni borgarinnar Blois. Foreldrarnir fundust hins vegar ekki fyrr en að erfðaefni sonar þeirra var rannsakað í tengslum við alls óskylt mál. Tengsl sem fundust milli erfðaefnanna sýndu að hann væri bróðir stúlkunnar.

Foreldrarnir voru leiddir fyrir dómara í dag og kunna að eiga morðákæru yfir höfði sér.

BBC segir foreldrana ekki hafa verið nafngreinda, en talið er að þeir séu á sjötugsaldri. Lögregla hefur ekki tjáð sig opinberlega um handtökuna sem átti sér stað á þriðjudag.

Stúlkan fannst í skurði við A10 hraðbrautina í nágrenni Blois í ágúst 1987. Yfirvöld gátu ekki borið kennsl á hana, en talið var að hún væri á 3-5 ára gömul. Stúlkan bar merki langvarandi misþyrminga, m.a. hafði hún beinbrotnað og brunasár eftir brennandi járn voru á líkama hennar. Þá höfðu sumir líkamshlutar sætt limlestingum.

Málið hefur valdið lögreglu heilabrotum áratugum saman og var málið …
Málið hefur valdið lögreglu heilabrotum áratugum saman og var málið opnað á ný 2012. Þá var birt mynd af andliti stúlkunnar með áletruninni „Hver er hún?“ og vitni voru hvött til þess að gefa sig fram. AFP

Franskir fjölmiðlar gáfu stúlkunni nafnið „Litli píslarvotturinn á A10“ og hún var jörðuð í nafnlausri gröf.

Málið hefur valdið lögreglu heilabrotum áratugum saman og var málið opnað á ný 2012. Þá var birt mynd af andliti stúlkunnar með áletruninni „Hver er hún?“ og vitni voru hvött til þess að gefa sig fram. Stúlkunni var lýst sem svo að hún hefði verið í blárri köflóttri skyrtu, hún hefði liðað svart hár og væri af Miðjarðarhafs eða mögulega norðurafrískum uppruna.

Vatnaskil urðu svo í rannsókninni  á síðasta ári þegar maður var handtekinn vegna ofbeldisbrots. DNA-rannsókn leiddi þá í ljós að hann var bróðir stúlkunnar. Eftir margra mánaða rannsókn til viðbótar hefur lögregla nú handtekið foreldrana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert