Húsleit í fjölbýlishúsi eftir eiturfund

Þýska lögreglan við fjölbýlishúsið í Köln þar sem eitrið fannst. …
Þýska lögreglan við fjölbýlishúsið í Köln þar sem eitrið fannst. Talið er að tekist hafi að koma í veg fyrir hryðjuverkaárás. AFP

Þýska lögreglan er nú að framkvæma húsleit í fjölbýlishúsi í Köln, þar sem grunur leikur á að maður frá Túnis hafi geymt banvæna eitrið rísin. Þýskir fjölmiðlar segja manninn, sem þeir nefna Sief Allah H, nú vera yfirheyrðan af lögreglu.

Lögreglan réðst inn í íbúð hans á þriðjudag og fann þá efni sem síðar reyndist vera rísin. Segir BBC grun leika á að hann hafi verið að undirbúa hryðjuverkaárás með eitrinu.

Rísin er eitur sem unnið er úr plöntu og er talið vera sex þúsund sinn­um öfl­ugra en blá­sýra. Korn af efn­inu, sem veg­ur aðeins 70 míkró­grömm, næg­ir til þess að ganga af mann­eskju dauðri. Segir þýska lögreglan magn efnisins sem fannst í íbúð mannsins hafa dugað í 1.000 eiturskammta.

Fræ plöntunnar Ricinus communis sem eitrið er unnið úr.
Fræ plöntunnar Ricinus communis sem eitrið er unnið úr. AFP

Lögreglan hefur rýmt fjölbýlishúsið sem er í Chorweiler-hverfinu í Köln og stendur nú fyrir húsleit í tveimur íbúðum sem hinn grunaði leigði. Þá rannsakar hún einnig sex tómar íbúðir í húsinu sem og nokkur opin rými.

Að sögn þýskra yfirvalda stafar öðrum íbúum í húsinu ekki hætta af, en miklar líkur eru sagðar á að komið hafi verið í veg fyrir hryðjuverkaárás.

Rísin getur verið notað í duftformi og sem úði, en það fékk mikla fjölmiðlaathygli er það var notað til að myrða búlgarskan andófsmann, Georgi Markov, í London í Kalda stríðinu. Var hann stunginn í lærið með regnhlíf sem eitrinu hafði verið komið fyrir á.

Þýskir fjölmiðlar segja manninn hafa vakið athygli yfirvalda eftir að hann keypti 1.000 fræ af plöntunni sem geymir rísin og rafmagnskaffikvörn á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert