Indverjar óttast mesta vatnskort frá upphafi

Kona flytur vatn heim á hjóli sínu. Indland stendur nú …
Kona flytur vatn heim á hjóli sínu. Indland stendur nú frammmi fyrir versta vatnskorti í sögu landsins. AFP

Indland stendur nú frammi fyrir versta vatnskorti í sögu landsins, en hugveita á vegum stjórnvalda segir vatnskort nú blasa við 600 milljónum manna í landinu.

Niti Aayog skýrslan byggir á gögnum frá 24 af 29 fylkjum Indlands og segir í henni að ástandið eigi aðeins eftir að versna á næstu árum. Þá er varað við því að líklegt sé að 21 borg verði orðin grunnvatnslaus strax árið 2020. Vatnsskorturinn muni einnig ógna fæðuöryggi landsins, enda sé 80% vatnsins notað við landbúnaðarframleiðslu.

BBC segir nokkuð algengt að vatnsskortur verði í indverskum borgum og bæjum yfir sumarmánuðina, vegna skorts á innviðum til vatnsflutninganna á heimili íbúa.

Vatnskorturinn hefur einnig veruleg áhrif í dreifbýli landsins, en íbúar þar geta ekki reitt sig á grunnvatn þar sem regn fellur óreglulega og það grunnvatn sem til fellur er í sívaxandi mæli nýtt til landbúnaðar þegar monsún tímabilið lætur á sér standa, eða úrkoma er ekki næg.

Tankbíll kemur með vatn til íbúa í Sanjay fátækrahverfinu í …
Tankbíll kemur með vatn til íbúa í Sanjay fátækrahverfinu í Delhi. Langar raðir af fólki sem bíður þess að sækja vatn úr tönkum eða almenningskrönum er algegn sjón í fátækrahverfum á Indlandi. AFP

Eftirspurn verði tvisvar sinnum meiri en framboðið

Um 200.000 manns deyja ár hvert á Indlandi vegna skorts á hreinu vatni. Margir enda því á að greiða einkafyrirtækjum fyrir vatnsbirgðir, eða reiða sig á vatnstanka sem stjórnvöld sjá um að koma upp. Langar raðir af fólki sem bíður þess að sækja vatn úr tönkum eða almenningskrönum er algeng sjón í fátækrahverfum á Indlandi.

Skýrsluhöfundar telja að árið 2030 þá verði eftirspurn eftir vatni tvisvar sinnum meiri en framboðið. Þá kunni vatsskortur að valda 6% lækkun á þjóðarframleiðslu landsins.

Ekki standa þó öll fylki jafn illa að vígi og er ástandið nokkuð gott í Gujarat, Madhya Pradesh og Andhra Pradesh. Þau ríki sem standa hvað verst eru hins vegar fjölmennustu ríkin, Uttar Pradesh, Haryana, Bihar og Jharkhand, þar sem um helmingur landsmanna býr.

Segja skýrsluhöfundar löggjafann eiga erfitt verk fyrir höndum þar sem verulega skorti á upplýsingar um það hvernig indversk fyrirtæki og heimili nýta vatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert