Trump: Skýrslan „stórslys“ fyrir Comey

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hfa gert bandarísku þjóðinni stóran greiða …
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hfa gert bandarísku þjóðinni stóran greiða með því að reka James Comey úr embætti forstjóra FBI. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir skýrslu innra eftirlits dómsmálaráðuneytisins vera „stórslys“ fyrir James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögregluna FBI og stofnunina sjálfa. Í skýrslunni seg­ir að Comey hafi ekki farið eft­ir regl­um stofn­un­ar­inn­ar þegar hann annaðist rann­sókn á Hillary Cl­int­on árið 2016.

„Rannsókn innra eftirlitsins er stórslys fyrir Comey, skósveina hans og því miður fyrir FBI,“ skrifaði Trump á Twitter í morgun.

„Comey verður nú opinberlega minnst sem langversta leiðtogans í sögu FBI. Ég gerði þjóðinni stóran greiða með því að reka hann. Þetta er gott innsæi,“ bætti Trump við.

Dómsmálaráðuneytið sagði Comey hafa verið „óhlýðinn“ og ekki hafa farið eft­ir regl­um stofn­un­ar­inn­ar. Eng­ar sann­an­ir hafi hins vegar fund­ist um póli­tíska hlut­drægni við rann­sókn­ina á tölvu­póst­um Cl­int­on, mót­fram­bjóðanda Don­alds Trumps til for­seta­embætt­is Banda­ríkj­anna. 

Comey og FBI eru þó harðlega gagnrýnd í skýrslunni. Er Comey þar m.a. sagður ítrekað hafa ekki farið eftir reglum og starfsháttum stofnunarinnar og eru tveir starfsmenn sem heyrðu beint undir Comey sagðir hafa sýnt fram á vilja til að grípa til opinberra aðgerða til að hafa áhrif á sigurlíkur Trumps í kosningunum.

Þá er Comey sakaður um að hafa notað einkanetfang sitt í störfum sínum fyrir stofnunina og fer kaldhæðni þeirra ásakana ekki framhjá Clinton, sem var ásökuð fyrir að hafa geymt trúnaðargögn í einkapósthólfi sínu er hún var utanríkisráðherra.

„En tölvupóstarnir mínir,“ skrifaði Clinton á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert