Öryggisráðið hafnar kröfu Svía en vill höfnina opna

Hersveitir jemenstjórnar skjóta í átt að flugvelli Hudaydah. Fréttir hafa …
Hersveitir jemenstjórnar skjóta í átt að flugvelli Hudaydah. Fréttir hafa borist af hörðum átökum á svæðinu frá því á miðvikudag og hersveitir stjórnarinnar eru nú staddar um 2 km frá flugvellinum. AFP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ítrekaði í gær kröfu sína að stríðandi fylkingar í Jemen tryggi að höfninni borginni Hudaydah verði áfram haldið opinni. Öryggisráðið féllst hins vegar ekki á tillögu Svía um að ráðið krefjist þess að átökum á svæðinu verði hætt þegar í stað.

Her­sveitir stjórn­valda í Jemen hófu fyrir skömmu  áhlaup á hafn­ar­borg­ina Hudaydah. Her­sveit­irnar njóta stuðnings Sádí-Ar­ab­íu, en Hudaydah, er und­ir stjórn upp­reisn­ar­manna.

Höfnin er ein helsta aðkomuleið fyrir afhendingu neyðargagna til Jemen.

Fundur Öryggisráðsins var haldinn í gær fyrir lokuðum dyrum, en  Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa þegar vakið at­hygli á að árás­irn­ar kunni að lama flutn­ing hjálp­ar­gagna og mat­væla til millj­óna íbúa Jemen sem eru á barmi hung­urs­neyðar.

Fyrir fundinn sagði Carl Skau, sendifulltrúi Svíþjóðar hjá Sameinuðu þjóðunum tímabært að Öryggisráðið krefðist þess að öllum hernaðaraðgerðum í landinu yrði hætt samstundis. Ekki var hins vegar nægur stuðningur í ráðinu til að hvetja Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin til að hætta áhlaupinu. Þess í stað ítrekaði Öryggisráðið fyrri kröfu sína um að höfninni yrði haldið opinni að því er BBC hefur eftir Vassily Nebenzia, sendifulltrúa Rússlands, sem fer með forsæti í ráðinu.

Sagði hann fulltrúa Öryggisráðsins alla deila áhyggjum af hættunni sem áhlaupið á Hudaydah skapaði.

Fréttir hafa borist af hörðum átökum á svæðinu frá því á miðvikudag og hersveitir stjórnarinnar eru nú staddar um 2 km frá flugvelli borgarinnar. „Átökin eru að færast nær al-Manzar svæðinu í nágrenni flugvallarins og fólk flýr nú fullt ótta,“ hefur BBC eftir Mohammed Abdullah sem vinnur fyrir stjórn húta í borginni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert