Munkur á daginn og plötusnúður á kvöldin

Í afskekktu búddistahofi í Japan lifir Akinobu Tatsumi tvöföldu lífi. Hann er búddista munkur á daginn en snýr skífum á kvöldin og hélt lengi vel þessum tveimur heimum vandlega aðskildum.

Tatsumi hafði verið að fikta í hipp hopp tónlist frá því hann var unglingur og býr til sína eigin sveimtónlist (e. ambient), sem hann tekur upp á meðan aðrir munkar í hofinu sofa. Lengi vel hélt Tatsumi þessu áhugamáli sínu leyndu fyrir öðrum munkum í Syousanji hofinu og þeim búddistum sem þangað koma, en hofið er í fjallgarði á Kyushu eyjunni.

„Munkar flytja yfirleitt venjulega predikun,“ segir Tatsumi í samtali við AFP. „Fyrst þegar ég byrjaði að spila tónlist mína fyrir ömmurnar sem hingað koma og sýndi þeim hvernig maður skratsar þá virtist þeim vera svolítið skemmt.“

 „Fólkið hérna kallar mig fönk-munkinn,“ bætti hann.  

Búddista munkurin Akinobu Tatsumi snýr skífum með öðrum plötusnúðum.
Búddista munkurin Akinobu Tatsumi snýr skífum með öðrum plötusnúðum. AFP

Reyndi með sér sem taktkjaftur á klettabrún

Tatsumi lítur heldur ekki út eins og hefðbundinn búddista munkur, hann er með sítt hár sem hann bindur í tagl og lítur á sig sem mannlega taktkjaft (e. beatbox). „Áhrifin koma frá hipp hopp tónlist. Ég byrjaði á að hlusta á Run-DMC og Public Enemy,“ segir Tatsumi og skautar fimlega framhjá umræðuefninu um berorða texta sem oft einkenna rappið.

„Ég reyndi síðan með mér sem taktkjaftur þegar ég var að gera æfingar á klettabrún. Bergmálið var svo gott.“

Það var ekki áhættulaust fyrir Tatsumi að taka hliðarskref frá fræðum búddismans með tónlistinni og hann segist einnig hafa haldið munkalífinu vandlega duldu á þeim stöðum þar sem hann hefur spilað sem plötusnúður.

„Ég sagði hinum munkunum ekki frá tónlistinni minni, en ég faldi líka þá staðreynd að ég var munkur á börunum og klúbbunum,“ segir Tatsumi. Hann segir tengsl sín við tónlistina hafa byrjað áður en hann fæddist. Móðir mín hélt oft hátalara að maga sínum og spilaði ýmist fyrir mig klassíska tónlist eða diskó,“ segir hann. „Seinna þegar ég fann þessar plötur og spilaði þær, þá fannst mér ég hafa heyrt þær áður sem var skrýtið.“

Tatsumi flytur predikun fyrir þau Kumiko Uemoto og Yoshiteru eftir …
Tatsumi flytur predikun fyrir þau Kumiko Uemoto og Yoshiteru eftir að flytja bænir heima hjá þeim. AFP

Bjó til tónlist á sjúkrasænginni

Tatsumi reynir sitt til að komast ekki upp á kant við sammunka sína þegar hann setur saman tónlist sína og notar því heyrnatól er hann blandar raftónlist og dubstep saman við söngl búddista.  Jafnvel eftir að hann greindist með MS-sjúkdóminn fyrir fjórum árum síðan þá hélt Tatsumi áfram að búa til tónlist úr sjúkrarúmi sínu.

„Þá notaði ég píp hljóðið í hjarta síritanum til að búa til klúbbtónlist,“ segir Tatsumi sem í dag gengur við staf. Munkurinn sem eitt sinn ferðaðist um á hjólabretti, telur veikindin hins vegar hafa gert sig nánari þeim sem heimsækja klaustrið til bænahalds.

„Ég fann skyndilega til tengsla við þá öldruðu sem koma í hofið og þá sem þjást af veikindum eða meiðslum,“ segir hann. „Nú orðið semur mér frábærlega við gamla fólkið!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert