Skutu 100 kílógramma birnu

Dýrið var um 100 kg að þyngd og hafði allra …
Dýrið var um 100 kg að þyngd og hafði allra bragða verið neytt til að koma því út úr sauðfjárverndargirðingunni áður en fylkismaðurinn kvað upp úrskurð sinn um aflífun í gærkvöldi. Ljósmynd/Mogens Totsås/Statens Naturoppsyn

„Það er algjörlega fáheyrt að þetta gerist og hefur held ég gerst einu sinni áður og það var fyrir mörgum árum,“ sagði Kjell Vidar Seljevoll, náttúrufræðingur og aðalráðgjafi fylkismannsins í Þrændalögum í Noregi, í samtali við mbl.is í kvöld en umræðuefnið var 100 kílógramma þung birna sem braut sér leið gegnum rafmagnsgirðingu sauðfjárbónda og var að lokum felld með skoti í gær eftir að tilraunir til að koma henni út af svæðinu síðan á fimmtudaginn höfðu engan árangur borið. 

„Hann hefur verið með þessa girðingu í mörg ár til að vernda bústofninn fyrir björnum og úlfum, fær einhvern styrk frá ríkinu til þess og þetta hefur virkað alveg sem skyldi fram að þessu, allt þar til nú,“ sagði Seljevoll enn fremur en hann harmar atvikið mjög og segir yfirvöld á svæðinu grípa til allra mögulegra ráða áður en til þess kemur að grípa til vopna.

Það var skytta á vegum Náttúruverndarstofnunar Noregs (n. Statens Naturoppsyn, SNO) sem að lokum greip til þess örþrifaráðs að fella dýrið en hafði þá allra bragða verið neytt til að koma því út af svæðinu, svo sem að rjúfa straum á rafmagnsgirðingunni og reyna að fæla birnuna nægilega til að hún reyndi að koma sér út aftur. Það var klukkan 23:40 í gærkvöldi, 21:40 að íslenskum tíma, sem fylkismaðurinn kvað upp hinn dapurlega úrskurð sinn um að dýrið skyldi fjörvi numið.

Áður en birnan var felld hafði hún drepið sex dýr á svæðinu, fimm sauði og eitt lamb, og lágu hræin eins og hráviði um tún bóndans. Var þá ljóst að við svo búið mætti ekki una en birnan hafðist við innan girðingarinnar í þrjá daga áður en hún mætti örlögum sínum.

Beitarlönd bóndans eru í Lierne, austast í Þrændalögum og um 120 km austur af Stiklastöðum þar sem Ólafur helgi Noregskonungur féll í átökum við bændur í Stiklastaðaorrustu í júlí 1030 og með honum hirðmaður hans Þormóður Kolbrúnarskáld, fóstbróðir Þorgeirs Hávarssonar sem segir af í Fóstbræðra sögu.

„Það var rétt fyrir miðnætti sem við fengum boð um að birnan hefði verið felld,“ sagði Seljevoll í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Það er ljóst að birnan hefur einhvern tímann átt unga en hún var ekki mjólkandi þegar hún safnaðist til feðra sinna. Við erum núna að taka DNA-sýni úr hræinu, aðallega til að ganga úr skugga um hvort hún hafi verið móðir tveggja húna sem fundust við Tunnsjøen nú snemmsumars, annar reyndar dauður og hinn svo máttfarinn og vannærður að við neyddumst til að lóga honum,“ sagði Seljevoll enn fremur við NRK.

Fréttir annarra norskra fjölmiðla af málinu en vísað hefur verið í:

Adresseavisen

Namdalsavisa

Trønder-Avisa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert