Sögulegt samkomulag um Makedóníu

Grikkland og Makedónía hafa undirritað sögulegt samkomulag sem er ætlað að binda enda á áratugalanga deilu vegna nafnsins Makedónía. Samkvæmt samkomulaginu mun Makedónía nú heita Norður-Makedónía.

Styr hefur staðið um nafnið eftir að Júgóslavía liðaðist í sundur sem Makedónía tilheyrði. 

Fram kemur á vef BBC, að þing þjóðanna eigi þó eftir að samþykkja þessa breytingu auk þess sem boðað verður til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í Makedóníu. Þjóðernissinnar eru þessu algjörlega mótfallnir.

Stjórnvöld í Grikklandi hafa lengi haldið því fram að með því að nota nafnið Makedónía, þá hafi nágrannar þeirra í norðri verið að halda því fram að þeir eigi rétt á yfirráðum á héraði í norðurhluta Grikklands sem ber sama nafn.

Deilan hefur leitt til þess að Makedóníu hefur ekki fengið að ganga í NATO eða í ESB.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, fagnaði samkomulaginu í dag. „Þetta er hugrakkt, sögulegt og nauðsynlegt skref fyrir þjóðir okkar.“

Tsipras og starfsbróðir hans í Makedóníu, Zoran Zaev, fylgdust með því þegar utanríkisráðherrar þjóðanna undirrituðu samkomulagið við Prespa-vatn við grísku landamærin. 

Í gær stóð Tsipras af sér tillögu um vantraust í gríska þinginu vegna málsins, en hann var sakaður um of miklar tilslakanir.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, (til hægri) ásamt Zoran Zaev, forsætisráðherra …
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, (til hægri) ásamt Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu. Þeir fögnuðu samkomulaginu í dag, sem þing landanna eiga þó eftir að samþykkja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert