Hvað er málið með myndbandsdómarana?

Myndbandsdómarar að störfum í Alþjóðlegu útsendingarmiðstöðinni (IBC) í Moskvu. Öll …
Myndbandsdómarar að störfum í Alþjóðlegu útsendingarmiðstöðinni (IBC) í Moskvu. Öll myndbandsdómgæsla á HM fer fram í þessu herbergi, hvar sem leikið er í landinu. AFP

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu er farið af stað með látum og þá vaknar knattspyrnuáhugamaðurinn innan margra af fjögurra ára dvala. Þeim, sem ekki hafa fylgst með þróuninni síðustu misserin, kann að bregða í brún þegar þeir sjá dómarann stöðva leikinn og hlaupa út að hliðarlínu til að rýna á skjá. Myndbandsdómgæsla (e. VAR, video assistant referee) er nú notuð í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti en lögum um notkun hennar var bætt við Reglur leiksins (e. Laws of the Game) fyrr á árinu.

Hver ræður?

Knattspyrnulögin eru ekki í höndum FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, heldur sérstakrar stofnunar IFAB, Alþjóðaknattspyrnuráðsins, og er lagasetning hennar eina hlutverk. FIFA hefur fjóra fulltrúa innan Alþjóðaknattspyrnuráðsins, en að auki hafa bresku sérsamböndin fjögur, FA frá Englandi, SFA frá Skotlandi, FAW frá Wales og IFA frá Norður-Írlandi, eitt atkvæði hvert í samræmi við breska arfleifð boltans. Ráðið fundar árlega um mögulegar lagabreytingar, en það er sjaldan sem til þess kemur að þeim sé breytt enda þykir ráðið hafa íhaldssöm viðhorf gagnvart knattspyrnureglunum, Laws of the Game. Skyldi engan undra enda mál manna að fegurðin í fótboltanum felist í einfaldleikanum. Lagabreytingar þurfa samþykki sex fulltrúa ráðsins af átta.

Það var árið 2016 sem Alþjóðaknattspyrnuráðið opnaði á að myndbandsdómgæsla yrði heimiluð í tilraunaskyni. Síðan þá hefur knattspyrnuheimurinn þreifað fyrir sér með notkun þeirra með misjöfnum árangri. Í ágúst 2016 léku tvö bandarísk varalið úr MLS-deildinni og nýtti dómarinn sér í tvígang skjá á hliðarlínunni áður en hann ákvað að spjalda leikmenn: fyrst rautt svo gult.

Ástralska úrvalsdeildin varð sú fyrsta til að nota VAR-tæknina í alvörukeppnisleik 7. apríl 2017 þegar Melbourne City og Adelaide United mættust í opnunarleik tímabilsins. Dómari leiksins lét tæknina reyndar eiga sig og það var því ekki fyrr en daginn eftir í öðrum leik keppnistímabilsins sem fékk að reyna á mátt myndavélanna.

Síðan þá hefur tæknin verið notuð í ýmsum keppnum, svo sem álfukeppni FIFA og þýsku úrvalsdeildinni.

Í mars síðastliðnum, á árlegum fundi Alþjóðaknattspyrnuráðsins, var samþykkt að skrifa myndbandsdómgæslu inn í knattspyrnureglurnar. Notkun hennar verður þó alltaf valkvæð og í höndum skipuleggjenda móta. Þannig eru engin plön um að taka upp slíka dómgæslu í ensku úrvalsdeildinni eða Meistaradeild Evrópu, tveimur af stærstu keppnum félagsliða í heiminum.

Boltinn hafði verið í leik í nær þrjátíu sekúndur og …
Boltinn hafði verið í leik í nær þrjátíu sekúndur og var kominn á miðjan völlinn þegar Bakary Gassama, dómari í leik Perú og Danmerkur, ákvað að stoppa leikinn og kíkja á myndband. Úr varð að Perúmenn fengu víti. AFP

Hvenær má nota VAR?

Í þeim keppnum sem notast við myndbandsdómgæslu takmarkast noktun hennar við fjögur tilfelli, samkvæmt reglunum:

  • Mark
    Kerfið má nota til að athuga hvort boltinn hafi í raun og veru farið yfir línuna. Einnig má nota tæknina til að skoða hvort brot hafi verið framið í aðdraganda marksins, en í þeim tilfellum getur dómari ógilt mark.
  • Vítaspyrnur
    Dómarar geta nýtt sér myndbönd til að athuga hvort dæma á vítaspyrnu, sem ekki var gefin. En það gildir líka í hina áttina. Dómarar geta afturkallað fyrri vítaspyrnudóm sjái þeir að sér við það að horfa á upptökuna.
  • Rautt spjald
    Hafi dómari tekið ákvörðun um að dæma brot má hann líta á upptökur áður en hann tekur ákvörðun um hvort hann gefur leikmanni rautt spjald.
  • Rangur leikmaður
    Gefi dómari röngum leikmanni spjald fyrir brot hafa aðstoðardómarar möguleika á að leiðrétta þau með hjálp myndbanda.

Fjórir myndbandsdómarar – einn aðal og þrír til aðstoðar – eru dómurunum innan handar á hverjum leik á heimsmeistaramótinu. Þeir sitja allir í sérstöku myndbandsherbergi í Moskvu og gildir einu hvar leikurinn sjálfur fer fram. Myndbandsdómararnir fylgjast með leiknum og yfirfara klippur í rauntíma. Sjái þeir eitthvað athugavert geta þeir látið dómarann vita, en dómarinn getur einnig leitað til þeirra. Þeir eru þó aðeins dómaranum til ráðgjafar. Allar ákvarðanir eru að lokum í höndum aðaldómara leiksins.

VAR átti að útkljá vafaatriði, en það eru enn þá …
VAR átti að útkljá vafaatriði, en það eru enn þá allir að rífast, sagði sparkspekingur á kaffistofu Morgunblaðsins meðan fréttin var í smíðum. AFP

Leikurinn ekki alltaf stoppaður

VAR-tæknin er hönnuð með það fyrir augum að hún hafi sem minnst áhrif á flæði leiksins, en þó þannig að dómarinn geti með auðveldum hætti sannreynt ákvarðanir sínar. Tæknin er nýtt á þrjá vegu:

  • Snuðrulaus noktun
    Dómarinn getur fengið skilaboð í eyrun þess efnis að verið sé að yfirfara ákvörðun. Myndbandsdómararnir munu síðan ráðleggja dómaranum að halda sig við ákvörðunina eða snúa henni við án þess að leikmenn eða áhorfendur verði þess endilega varir að dómarinn sé að nýta sér myndbandstækni.

    Fyrir HM nú var þeim skilaboðum til dæmis beint til línuvarða, dómaranna á hliðarlínunni sem fylgjast með hvort sóknarmenn eru rangstæðir, að flagga ekki rangstöðu nema hún sé alveg skýr. Séu þeir óvissir skuli þeir halda flagginu niðri og eftirláta verkið myndbandsdómurum. Þannig hafa myndbandsdómararnir vafalaust hjálpað til við að úrskurða um fjölmörg vafamál þess efnis það sem af er móti án þess að áhorfendur verði nokkurs vísir.

  • Leikurinn stöðvaður
    Með myndbandsupptöku að vopni er rangstöðudómur nokkuð skýr: annaðhvort er sóknarmaðurinn fyrir innan aftasta varnarmann, og því í rangstöðu, eða ekki. Oftar en ekki eru mörkin milli þess sem má og þess sem er bannað þó óskýrari. Myndbönd með réttu sjónarhorni geta hjálpað dómurum að taka ákvörðun um það hvort leikmaður felldi annan, en ákvörðunin er þó alltaf háð mati dómarans.

    Dómarinn getur stöðvað leikinn með því að teikna ferning út í loftið með báðum höndum og gefa þannig merki um að hann ætli að nýta sér myndband. Í sumum tilfellum kann hann að láta nægja að leyfa myndbandsdómurunum að horfa á myndband og taka ráðgefandi ákvörðun, en hann getur einnig skokkað að hliðarlínunni og horft á nokkrar klippur af atvikinu á sérstökum skjá áður en hann tekur ákvörðun. Þær klippur eru handvaldar af myndbandsdómurum með það að markmiði að gefa dómaranum besta sjónarhornið á atvikið.

Þegar dómari tekur ákvörðun um að horfa á klippur frá tilteknu atviki eru sömu klippur sýndar í sjónvarpsútsendinu og ætti ákvörðun dómarans því ekki að koma flatt upp á áhorfendur heima í stofu. Sömu sögu er þó ekki að segja af leikmönnum og vallargestum. Þeir fá ekki að sjá neitt.

Ítalski stjörnudómarinn Pierluigi Collina fer fyrir dómaranefnd heimsmeistaramótsins en hann …
Ítalski stjörnudómarinn Pierluigi Collina fer fyrir dómaranefnd heimsmeistaramótsins en hann lét af störfum sem dómari árið 2005. Collina var valinn dómari ársins sex ár í röð og er af mörgum talinn besti dómari allra tíma. AFP

Deildar meiningar

Skiptar skoðanir eru um ágæti VAR-tækninnar. Andstæðingar hennar segja meðal annars að hún skemmi flæði leiksins og valdi töfum. Þá þykir notkunin geta verið óskýr. Í leik Danmerkur og Perú í gær liðu til að mynda nær þrjátíu sekúndur frá því Christian Cuev féll í vítateig Dana og þar til dómarinn stoppaði leikinn, skokkaði út að hliðarlínu og tók ákvörðun um að dæma víti.

Gianni Infantino, forseti FIFA, er einn stuðningsmanna tækninnar. „Okkur ber skylda til að sjá dómurum fyrir öllum tólum sem þeir þurfa til að taka ákvörðun eins nákvæmlega og mögulegt er,“ sagði Infantino í viðtali við tímarit FIFA fyrr á árinu. Hann sagði knattspyrnusambandið vera búið undir gagnrýni. „Þegar fólk hefur jafnmikinn áhuga á einhverju og það hefur á fótbolta þá verða alltaf umræður.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert