May: Pilsfaldalög samþykkt á næstunni

Theresa May.
Theresa May. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segist vilja að frumvarp sem gerir myndatöku undir pilsfaldi kvenna ólöglega fari gegnum þingið von bráðar. Ummælin koma í kjölfar þess að einn þingmanna hennar flokks, Íhaldsflokksins, kom í veg fyrir að það næði fram að ganga.

Christopher Chope, þingmaður Íhaldsflokksins, hefur þurft að þola gagnrýni úr eigin flokki fyrir andstöðu sína við frumvarpið. Verði það að lögum getur hver sá sem tekur mynd undir pilsi í Englandi eða Wales átt yfir höfði sér tveggja ára fangelsisdóm.

Búist var við að frumvarpið rynni í gegnum neðri deild þingsins á föstudag, en þingsköp kveða á um að aðeins þurfi einn þingmaður að leggjast gegn því til að stöðva framgang þess. Það gerði Chope með því að kalla „object“, mótmæli, af bekknum.

Ákvörðun Chope féll í grýttan jarðveg þingmanna og er David Gauke dómsmálaráðherra meðal þeirra sem lýst hafa vonbrigðum sínum með ákvörðun Chope.

Kvenréttindaráðherra Breta, Victoria Atkins, segir að ríkisstjórnin muni sjá til þess að frumvarpið fái þinglega meðferð en dagi ekki uppi meðal þingmannafrumvarpa.

Að sögn þingfréttaritara BBC er Cristopher Chope meðlimur hóps Íhaldsmanna sem leggur í vana sinn að það sem þeir kalla vel meinandi en illa undirbúin frumvarp renni ekki í gegnum þingið á vikulegum föstudagsfundum, sem jafnan eru illa sóttir heldur fái sömu þinglegu meðferð og önnur mál. Þegar allt kemur til alls sé verið að skilgreina nýtt hegningarlagabrot, sem menn geta lent í fangelsi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert