Óljóst hver ber ábyrgð á árás

AFP

Tæplega fjörutíu erlendir hermenn sem berjast við hlið Sýrlandshers voru drepnir í loftárásum í austurhluta Sýrlands, skammt frá landamærum Írak.

Mannúðarsamtökin Syrian Observatory for Human Rights greina frá þessu í morgun en sýrlenskir ríkisfjölmiðlar saka Bandaríkjaher og bandamenn um að bera ábyrgð á árásunum. Bandaríkjaher segir að það sé ekki rétt.

Yfirmaður mannúðarsamtakanna Syrian Observatory,  Rami Abdel Rahman, segir að árásin hafi verið gerð í Al-Hari við landamæri Sýrlands og Íraks í nótt. Um sé að ræða mannskæðustu árásina á hermenn hliðholla sýrlenskum stjórnvöldum í langan tíma. Alls létust 38 í árásinni og eru þeir allir erlendir ríkisborgarar.

Bandaríkjaher og bandamenn hafa gert árásir á bækistöðvar Ríkis íslams í austurhluta Sýrlands, Deir Ezzor þar sem Al-Hari er,  en neita að hafa gert árásina í nótt. Það hafa Rússar einnig gert. Mannúðarsamtökunum hefur ekki tekist að upplýsa um hverjir stóðu á bak við árásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert