„Snarpur en mjög sterkur“ skjálfti

Lestarkerfið hefur verið úr skorðum eftir jarðskjálftann sem reið yfir …
Lestarkerfið hefur verið úr skorðum eftir jarðskjálftann sem reið yfir Osaka. Ljósmynd/AFP

 „Við fundum fyrir kippinum í morgun, hann var snarpur en mjög sterkur,“ segir Hörður Magnússon, íslenskur ferðamaður, í samtali við mbl.is, um harðan jarðskjálfta sem varð í Osaka í Japan.

„Það er stutt á milli í þessu,“ sagði hann einnig en Hörður og eiginkona hans voru í Osaka fyrir nokkrum dögum. Þegar jarðskjálftinn reið yfir voru þau í Nagisi, uppi í fjöllum og talsvert frá upptökum skjálftans, en fundu engu að síður vel fyrir honum.

Þrír eru látnir og rúmlega tvöhundruð slasaðir eftir jarðskjálftann í Osaka sem átti sér stað um klukkan ellefu í gærkvöldi eða um átta um morgun að staðartíma. Þar á meðal níu ára stúlka sem varð undir vegg sem hrundi í eftirskjálfta.

Skjálftinn mældist 6,1 stig og honum fylgdu nokkrir eftirskjálftar. Ekki var gefin út flóðbylgjuviðvörun en Osaka og svæði í kring um borgina voru að mestu leyti rafmagnslaus.

Hörður segir alla fjölmiðla í Japan undirlagða af fréttum af skjálftanum sem greinilega sé alvarlegur.

Hörður Magnússon og Linda Björk Þórðardóttir eru á ferðalagi um …
Hörður Magnússon og Linda Björk Þórðardóttir eru á ferðalagi um Japan og fundu fyrir skjálftanum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert