Stakk konu í hálsinn

Lögreglan hefur meðal annars notað þyrlu við leit að árásarmanninum. …
Lögreglan hefur meðal annars notað þyrlu við leit að árásarmanninum. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Norska lögreglan

Kona var flutt með þyrlu á Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló fyrr í kvöld eftir að óþekktur árásarmaður stakk hana í hálsinn í bænum Sarpsborg, 90 kílómetra suður af höfuðborginni. Vitni sáu manninn hlaupa af vettvangi og leitar hans nú allt tiltækt lögreglulið auk þess sem lögregluþyrla tekur þátt í leitinni.

Það er Sarpsborg Arbeiderblad sem greinir frá málinu en dagblaðið VG fjallar einnig um það og hefur eftir Ronny Årstein, aðgerðastjóra lögreglunnar í austurumdæminu, að ekki sé vitað með vissu um ástand konunnar sem stendur en hún hafi hnífstunguáverka á hálsi.

Lögreglan á staðnum greindi frá málinu á Twitter þegar það kom upp og hefur nú uppfært upplýsingarnar og segir lögreglu yfirheyra vitni sem sáu til árásarinnar auk þess sem árásarmannsins sé leitað ákaft eins og fyrr segir. Hefur lögregla óskað eftir ábendingum frá almenningi í leit sinni að manninum en biður fjölmiðla vinsamlegast að hringja ekki rétt á meðan.

Umfjöllun annarra fjölmiðla en vísað hefur verið til:

ABC Nyheter

Dagbladet

NRK

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert