Þúsundir minntust Dixon

Eurydice Dixon.
Eurydice Dixon. Skjáskot af Facebook-síðu Eurydice Dixon

Þúsundir tóku þátt í minningarathöfn í Melbourne í dag þar sem Eurydice Dixon var minnst. Dixon, sem var 22 ára gömul, var nauðgað og hún myrt í síðustu viku þegar hún var á heimleið af skemmtun sem hún kom fram á í borginni. 

Nítján ára maður hefur verið ákærður fyrir að hafa nauðgað henni og myrt. Dauði Dixon hefur komið af stað mikilli umræðu um öryggi kvenna í Ástralíu. 

Skipuleggjendur minningarathafnarinnar „Reclaim Princes Park vigil“ skrifuðu á Facebook að allir eigi að geta gengið heim hvenær sem þeim hentar og verið vissir um að komast heilir heim. 

„Það er ekki okkar [kvenna] hlutverk að tryggja öryggi okkar þegar við vitum að það er í höndum karla að taka ákvörðun um að beita okkur ekki ofbeldi.“

Réttarhöldin yfir Jaymes Todd, sem er ákærður fyrir morðið á Dixon, hefjast í október en að sögn lögreglu þekktust þau ekki neitt. Rétt áður en hún varð fyrir árásinni sendi hún vini skilaboð þar sem hún sagðist alveg að vera komin heim og spyr vin sinn um hvort það sama eigi við um hann.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert