Tveir látnir í skotárás í Malmö

Frá Drottningagötunni í Malmö í kvöld.
Frá Drottningagötunni í Malmö í kvöld. Ljósmynd/Twitter

Tveir eru látnir og fjórir eru særðir eftir skotárás á Drottningagötunni í miðborg Malmö í kvöld. Ráðist var á mennina þegar þeir yfirgáfu netkaffihús í götunni. Að sögn sjónvarvotta var um fimmtán til tuttugu skotum hleypt af. 

Lögreglunni í Malmö barst tilkynning um skotárásina rétt eftir klukkan átta í kvöld að staðartíma. Hinir særðu voru allir fluttir á sjúkrahús og hefur sænska ríkisútvarpið eftir lögreglunni að tveir hinna særðu sé látnir, 18 ára og 29 ára karlmenn. Lögreglan hefur að öðru leyti ekki tjáð sig um árásina en segir að almenningi sé ekki hætta búin á svæðinu. Drottningagötunni og nærliggjandi götum hefur verið lokað. 

Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að ekki er talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við skotárásina og rannsókn á vettvangi stendur enn yfir. 

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert