Viðskiptavinur Walmart skaut byssumann til bana

Að minnsta kosti þrír viðskiptavinir Walmart voru vopnaðir byssum og …
Að minnsta kosti þrír viðskiptavinir Walmart voru vopnaðir byssum og einn þeirra skaut byssumann til bana sem hafði hleypt af skotum inni í versluninni. Ljósmynnd/Google maps

Viðskiptavinur Walmart-verslunarkeðjunnar í Bandaríkjunum skaut byssumann til bana á bílastæði verslunarinnar í Tumwater í norðvesturhluta Washington-ríkis í gær.

Talskona lögreglunnar í Tumwater segir að lögreglunni hafi borist tilkynning um mögulegan ölvunarakstur um klukkan 17 að staðartíma í gær. Nokkrum mínútum síðar hófst skothríð í grennd við gagnfræðiskóla. Þegar lögreglan kom á staðinn kom hún að 16 ára stúlku en maðurinn hafði ógnað henni með byssu og rænt bíl hennar. Stúlkan var ekki alvarlega slösuð en fékk aðhlynningu sjúkraflutningamanna.

Um hálftíma síðar barst lögreglu tilkynning um að skotum hefði verið hleypt af við Walmart-verslunarmiðstöð í nágrenni við gagnfræðiskólann. Um sama mann var að ræða og að sögn lögreglu fór maðurinn inn í verslunina þar sem hann hleypti af skotum.

Enginn slasaðist inn í versluninni en maðurinn fór því næst út á bílastæðið þar sem hann reyndi að stela öðrum bíl. Þegar ökumaður bílsins neitaði að láta hann af hendi skaut hann ökumanninn tvisvar sinnum. Hann var fluttur á slysadeild og er í lífshættu.  

Þrír viðskiptavinir verslunarinnar komu því næst út um aðalinnganginn, vopnaðir byssum, og skaut einn þeirra árásarmanninn til bana.

Sjónarvottar lýsa viðskiptavininum sem skaut byssumanninum sem hetju. „Ef hann hefði ekki gert þar sem hann gerði er ómögulegt að segja til um hvað hefði gerst næst,“ er haft eftir ónefndum borgara.

Lögreglan hefur ekki veitt frekari upplýsingar um byssumanninn.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert