Elsti órangútanapinn allur

Órangútanapinn Puan í dýragarðinum í Perth.
Órangútanapinn Puan í dýragarðinum í Perth. AFP

Elsti þekkti súmerski órangútanapi heims, Puan, er allur, 62 ára að aldri. Puan var búsettur í dýragarðinum í Perth í Ástralíu og lætur eftir sig 54 afkomendur. Samkvæmt frétt BBC var Puan svæfð í gær vegna aldurstengdra kvilla.

Puan hafði verið í dýragarðinum síðan 1968 og skráði Guinness World Records hana sem elsta apa sinnar tegundar í heimi árið 2016. Súmerskir órangútanapar eru í mikilli útrýmingarhættu og ná venjulega ekki 50 ára aldri úti í náttúrunni.

Talið er að Puan hafi fæðst í Sumatra-frumskóginum í Indónesíu árið 1956. Sjálf hefur hún eignast 11 afkvæmi og á alls 54 afkomendur sem eru niðurkomnir víða í Evrópu og Bandaríkjunum en einhverjum hefur verið gefið frelsi í Súmatra-frumskóginum, að sögn talsmanna dýragarðsins.

Minningagrein um Puan var birt í dagblaðinu The West Australian. „Í gegnum árin höfðu augnhár Puan gránað, hægt hafði á hreyfingum hennar og hugur hennar hafði tekið að reika. En hún var áfram þögla, þokkafulla daman sem hún hefur alltaf verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert