Flugumaður hjá Tesla

Elon Musk.
Elon Musk. AFP

Elon Musk, stofnandi og forstjóri bílaframleiðandans Tesla, hefur sakað starfsmann fyrirtækisins um að fremja „yfirgripsmikil og skaðleg skemmdarverk“. Í tölvupósti til starfsmanna segir forstjórinn að starfsmaðurinn, sem ekki er nefndur á nafn, hafi gert breytingar á kóða stýrikerfis framleiðsludeildar og sent viðkvæm gögn til utanaðkomandi aðila. Fyrirtækið hefur ekki viljað svara fyrir ásakanirnar en Musk segir málið verða rannsakað.

„Heildarumfang brotanna er ekki ljós, en það sem hann [starfsmaðurinn] hefur játað núþegar er nokkuð slæmt,“ segir í tölvupóstinum en þar kemur fram að starfsmaðurinn haldi því fram að hann hafi viljað stöðuhækkun sem hann fékk ekki.

„Eins og þið vitið er langur listi stofnana sem vilja að Tesla deyi,“ sagði Musk og taldi upp olíuframleiðendur, samkeppnisaðila á bílamarkaði og skortsölumenn á Wall Street.

Musk tilkynnti í síðustu viku að starfsmönnum fyrirtækisins yrði fækkað um 9% sem liður í endurskipulagningu bílaframleiðandans, sem hefur ekki enn skilað hagnaði, 15 árum eftir að hann var stofnaður.

Fyrirtækið tapaði 710 milljónum Bandaríkjadala, sem jafngildir 74 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert