Fundu yfir 700 byssur við húsleit

AFP

Lögreglan í nokkrum ríkjum Evrópu lagði hald á um 700 skotvopn, þar á meðal sprengjuvörpur og hríðskotabyssur, í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Europol en vopnin fundust í tveimur aðgerðum sem beindust að skipulögðum glæpasamtökum. Europol veitti aðstoð við aðgerðirnar.

Yfirvöld í Slóveníu stýrðu aðgerð sem nefnist Kolumbi en hundruð lögreglumanna í Króatíu, Slóveníu og á Spáni tóku þátt í henni. Í Slóveníu og Króatíu var lagt hald á fjölmörg vopn auk þess sem 33 voru handteknir. Eins fór spænska lögreglan í húsleitir í tengslum við aðgerðirnar 14. júní. Rannsóknin hefur staðið yfir í tvö ár og beindist hún að skipulagðri glæpastarfsemi í Slóveníu. Samtökin önnuðust smygl á vopnum og skotfærum frá Slóveníu til Ítalíu, Spánar og Frakklands.

Wikipedia/Joshuashearn

Yfir 600 lögreglumenn tóku þátt í aðgerðinni ARMES 72 á yfir 50 stöðum í Frakklandi 12.-14. júní. Leitað var á yfir 100 stöðum og 30 handteknir. Hald var lagt á yfir 700 skotvopn, þar á meðal 50 vélbyssur og 250 skammbyssur. Eins var lagt hald á sprengiefni og skotvörpur.

Vopnin voru öll ólögleg og í einhverjum tilvikum fundust þau falin bak við falska veggi og í vatnshitakútum. Nokkrar skammbyssur voru faldar í bókum sem búið var að skera innan úr til þess að fela þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert