Fyrsta aftakan í níu ár

Aðgerðasinnar frá Amnesty International mótmæltu aftökunni við Bang Kwang-fangelsið.
Aðgerðasinnar frá Amnesty International mótmæltu aftökunni við Bang Kwang-fangelsið. AFP

Dæmdur morðingi á þrítugsaldri var tekinn af lífi í Taílandi í gær  en þetta er fyrsta aftakan þar í landi síðan árið 2009. Theerasak Longji, sem var 26 ára gamall, var tekinn af lífi með banvænni sprautu en hann var dæmdur til dauða fyrir sex árum.

Amnesty International fordæmir aftökuna og segir hana ömurlega. Samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökunum voru 510 manns á dauðadeildum í fangelsum í Taílandi í lok síðasta árs. Þar af eru 94 konur. 

Forsætisráðherra Taílands, Prayut Chan-O-Cha, mun síðar í vikunni heimsækja Frakkland og Bretland og má búast við því að aftakan verði rædd á fundum hans með leiðtogum ríkjanna ásamt öðrum mannréttindamálum. 

AFP-fréttastofan fékk þær upplýsingar hjá dómsmálaráðuneytinu að dauðarefsingar væru enn í lögum landsins og með aftökunni í gær hafi lögum verið framfylgt. Frá árinu 1935 hafa 325 fangar verið teknir af lífi en flestir þeirra voru skotnir til bana af aftökusveit. Hætt var að beita þeirri aðferð árið 2003 en síðan þá hafa sjö fangar verið teknir af lífi, flestir með banvænni lyfjagjöf.

Theerasak stakk fórnarlamb sitt 24 sinnum áður en hann stal síma þess og peningaveski, samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu.  Flestir þeirra sem hafa verið dæmdir til dauða hafa gerst sekir um fíkniefnabrot. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert