Le Pen gert að endurgreiða

Marine Le Pen leiðtogi Rassemblement National – sem áður hét …
Marine Le Pen leiðtogi Rassemblement National – sem áður hét Front National. AFP

Almenni dómstóllinn (e. General Court, EGC) úrskurðaði í dag að leiðtogi þjóðernisflokksins franska, Rassemblement National (sem áður hét Front National), Marie Le Pen, verði að endurgreiða tæplega 300 þúsund evrur, tæpar 38 milljónir króna, sem hún sveik út úr Evrópuþinginu.

Um er að ræða peninga sem hún lét Evrópuþingið greiða aðstoðarmanni sínum án þess að geta fært sönnur á að viðkomandi hafi unnið fyrir þingið. Dómstóllinn kemst þar að sömu niðurstöðu og Evrópuþingið sem krafði Le Pen um endurgreiðslu. Sjálf heldur Le Pen því fram að um ofsóknir á hendur sér sé að ræða ekki fjársvik.

Evrópuskrifstofa um aðgerðir gegn svikum (OLAF) fann Le Pen seka árið 2016 um að hafa með ólögmætum hætti látið Evrópuþingið greiða aðstoðarmanneskju hennar 298.497,87 evrur í laun á tímabilinu desember 2010 til febrúar 2016. Evrópuþingið varaði Le Pen við því að ef hún myndi ekki endurgreiða fjárhæðina fyrir janúar 2017 þá yrði hún dregin af launum hennar hjá Evrópuþinginu.

Þetta er ekki fyrsta málið sem höfðað er gegn þingmönnum Front National varðandi greiðslur til aðstoðarfólks þingmanna flokksins fyrir vinnu sem tengist ekki Evrópuþinginu.

Í síðasta mánuði var þingmanni flokksins, Mylène Troszczynski, gert að endurgreiða tæplega 57 þúsund evrur í svipuðu máli og eins var faðir Marine Le Pen, Jean-Marie Le Pen, dæmdur til að endurgreiða um 300 þúsund evrur til þingsins í mars.

Politico

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert