Flóttafólki fjölgar í Albaníu

Albanía hefur hingað til ekki verið áfangastaður flóttafólks sem er að reyna að komast til vel stæðra ríkja í Evrópusambandinu en það er að breytast enda nánast ómögulegt að komast á annan hátt um Evrópu vegna aukinnar gæslu á landamærum flestra ríkja.

Eftir að hefðbundna leiðin um Balkanskagann lokaðist hafa margir Sýrlendingar valið að reyna að komast til ríkja eins og Þýskalands í gegnum Albaníu. 

Að sögn talsmanns innanríkisráðuneytis Albaníu, Ardi Bide, hefur þetta gerst eftir að löndin í kring hafa nánast lokað landamærum sínum fyrir flóttafólki sem er að koma frá Tyrklandi og Grikklandi. Í stað þess að fara um Makedóníu og Serbíu hefur flóttafólkið valið að fara um fátækari ríki eins og Albaníu og Búlgaríu.

Að sögn lögreglu hefur för 2.300 flóttamanna verið stöðvuð á landamærum Albaníu á þessu ári en ekki hefur verið gefið upp hversu margir þeirra hafa sótt um hæli í Albaníu.

Sýrlendingurinn Guwan Belei segir í samtali við AFP að fyrir marga er Albanía eina von flóttafólks um þessar mundir.

Belei, sem er 28 ára gamall, kom um um miðjan júní til Albaníu og er þar í einu móttökumiðstöðinni fyrir flóttafólk í landinu en hún er í höfuðborginni, Tirana. Þar eru um 200 flóttamenn en alls er rými fyrir 180 manns.

Belei hefur sótt um hæli í Albaníu en viðurkennir fúslega að Albanía sé aðeins gátt í hans huga þar sem Serbía og Makedónía hafa lokað landamærum sínum.

„Margir velja að sækja um pólitískt hæli í Albaníu því á meðan umsóknarferlið stendur yfir er reynt að finna leið til þess að komast til Svartfjallalands eða Bosníu og þaðan til Þýskalands, Danmerkur eða annarra ríkja,“ segir hann í samtali við AFP.

Margt hefur breyst í pólitísku landslagi ríkja ESB frá því komum flóttamanna fjölgaði umtalsvert árið 2015. Í Þýskalandi gætir vaxandi andúðar í garð flóttafólks og sömu sögu er að segja í ríkjum eins og Ítalíu og Danmörku svo einhver dæmi séu tekin. En flóttafólkið sem bíður í Tirana veit yfirleitt ekki um þessa andúð í þeirra garð þegar það kemur til Evrópu. Enda flestir að flýja stríð og aðrar lífshættulegar aðstæður í heimalandinu. 

 Þegar AFP fréttastofan kemur í móttökumiðstöðina í Tirana bíða flóttamenn sem eru nýkomnir í röð fyrir framan bygginguna á meðan aðrir eru að fara þaðan með föggur sínar í þeirri von að komast yfir landamæri Svartfjallalands í um 100 km fjarlægð frá Tirana. 

Leiðin yfir Tyrkland, Grikkland, Albaníu, Svartfjallaland og Bosníu áður en komið er til ESB-ríkisins Króatíu er erfið undir fót enda fjalllend. 

En það er ekki nóg til að draga kjarkinn úr Berivan Alus og eiginmanni hennar, Asmar, sem ætla að freista gæfunnar og reyna að komast til Vestur-Evrópu. Þau eru frá Afrin í norðvesturhluta Sýrlands og neyddust til þess að skilja þriggja ára gamlar tvíburadætur sínar eftir og foreldra þar sem ferðalagið er of hættulegt. Parið sýndi fréttamanni AFP myndir af stúlkunum og lýstu ferðalaginu sem þau eiga að baki. Þau hafa farið yfir engi, fjöll og ár, annað hvort fótgangandi eða á litlum bátum í leðju og rigningu.

Smyglarar aðstoðuðu þau við að komast að landamærum Albaníu frá Sýrlandi og greiddu þau 10 þúsund evrur, sem svarar til 1,3 milljóna króna, fyrir. Þau segjast aðeins ætla að dvelja tímabundið í Albaníu eða á meðan þau finna leið til þess að komast þaðan. 

Tæplega þrítugur Sýrlendingur, Kasim Yaakoum, segir að aðrir noti GPS tækni frekar en smyglara á flóttanum af ótta við ofbeldi af þeirra hálfu eða jafnvel mansal. „Enginn vill dvelja áfram í Albaníu enda mjög fátækt land,“ segir félagi hans, Yasser Alnablis. 

Flestir þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi koma frá Albaníu. Það virðist hins vegar vera að breytast en fyrstu fimm mánuði ársins sóttu 35 Albanar um hæli á Íslandi en 43 Írakar. Í fyrra bárust 262 umsóknir frá Albönum um hæli á Íslandi. Í fyrra voru Georgíumenn eina þjóðin sem var fjölmennari þegar kom að umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi en þær voru 289 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert