Flugumaður segist vera uppljóstrari

Tesla Model 3.
Tesla Model 3. AFP

Starfsmaður bílaframleiðandans Tesla, sem á dögunum var sagt upp vegna ásakana um innbrot í tölvukerfi bílaframleiðandans og þjófnaðar á innherjaupplýsingum fyrirtækisins, hefur stigið fram.

Maðurinn, sem heitir Martin Tripp, segir í samtali við Washinton Post í dag að hann hafi ekki átt við nein kerfi en að hann sé uppljóstrari sem hafi látið til skarar skríða eftir að hafa séð „mjög óhugnanlega hluti“ innan fyrirtækisins, þar á meðal hættulegar gataðar rafhlöður sem voru settar upp í rafbílum fyrirtækisins.

Í lögsókn á hendur Tripp kemur fram að hann hafi unnið í rafhlöðuverksmiðju fyrirtækisins, Gigafactory í Nevada, frá október þar til í síðustu viku þegar honum var sagt upp störfum. Tripp hafi skrifað forrit til að komast yfir trúnaðargögn, þar með talið myndir og myndbönd af framleiðslukerfum Tesla.

Þá er honum gefið að sök að hafa gefið blaðamönnum rangar upplýsingar um fyrirtækið, til að mynda fullyrðingar um að gallaðar rafhlöður hafi verið notaðar í Tesla Model 3 bílnum, sem kynntur var 2016.

Tripp viðurkennir í samtali við Washington Post að hafa komið upplýsingum til miðilsins Business Insider við vinnslu fréttar um stórfellda hráefnanotkun Tesla, en þar segir að framleiðsla Model 3-bílanna gangi enn hrapallega.

Tripp neitar að hafa hakkað sig inn í kerfi Tesla. „Ég hef ekki þolinmæðina fyrir forritun.“ Þá segir hann rangt sem birtist í yfirlýsingu Tesla að hann hafi verið ósáttur með að hafa ekki fengið stöðuhækkun. „Þetta er stöðluð afsökun hjá þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert