Mannréttindadómstóllinn hafnar Breivik

Anders Behring Breivik hefur breytt nafni sínu í Fjotolf Hansen. …
Anders Behring Breivik hefur breytt nafni sínu í Fjotolf Hansen. Hann hefur aldrei iðrast gjörða sinna. AFP

Mannréttindadómstóll Evrópu hafnaði í dag kvörtun norska vígamannsins Anders Behring Breivik um að taka fyrir mál hans. Breivik fór með mál sitt gegn norska ríkinu til dómstólsins þar sem hann telur aðstæður í fangelsinu þar sem hann afplánar ómannúðlegar.

Breivik afplánar 21 árs fangelsisdóm fyrir að hafa myrt 77 manns í júlí 2011, flest fórnarlamba hans voru ungmenni í sumarbúðum ungliðahreyfingar Verkamannaflokksins en Breivik er öfgamaður. Dómurinn var kveðinn upp með viðbótarúrræðinu varðveislu (n. forvaring) sem táknar að dómari getur framlengt fangelsisdvölina að 21 árs lágmarkstímanum liðnum. Breivik gæti því setið inni það sem hann á eftir ólifað en varðveisluúrræðið var tekið upp í norsk hegningarlög þegar lífstíðarfangelsi var afnumið á sínum tíma.

Frétt Aftenposten

 

Í fréttatilkynningu Mannréttindadómstólsins kemur fram að Breivik hafi lagt fram kvörtun sína til dómstólsins undir nýju nafni, Fjotolf Hansen. Ákvörðun þriggja dómara dómstólsins sé endanleg, kvörtunin verði ekki tekin fyrir þar sem hún sé ótæk.

Breivik var dæmdur í ágúst 2012 fyrir að hafa drepið 77 og sært 42, flesta í sumarbúðum í Útey en einnig nokkra með bílsprengju í miðborg Óslóar í júlí 2011. 

Hann áfrýjaði dómnum, einkum vegna þess að honum var haldið fjarri öðrum föngum. Hæstiréttur Noregs komst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið brotið á réttindum hans samkvæmt þriðju grein Mannréttindasáttmála Evrópu né heldur áttundu grein sáttmálans. Er það niðurstaða Mannréttindadómstólsins eftir að hafa rannsakað málið að ekkert bendi til þess að brotið hafi verið á mannréttindum fangans.

mbl.is