Flýja ofbeldi og mæta helvíti

AFP

Donald Trump forseti Bandaríkjanna telur að repúblikanar eigi ekki að eyða tíma í málefni innflytjenda fyrr en eftir kosningar í nóvember. Þá verði flokkurinn kominn með fleiri þingmenn og geti náð fram breytingum á löggjöfinni. Þetta kemur fram í Twitter-færslu Trump í dag.

Í fimm vikur vissi Evelin ekkert hvar börnin hennar tvö væru. Hún var skilin frá þeim á landamærum Bandaríkjanna 19. maí eftir að hafa flúið ofbeldi í heimalandinu, Gvatemala.  Evelin var saksótt og sent í Don Hutto búðirnar þar sem ólöglegum innflytjendum er haldið í Texas. Börnin hennar tvö; Eddy 17 ára og Lilian, sem er níu ára, voru skilin eftir í móttökumiðstöðinni og síðan send í fóstur með flugi til Grand Rapids, Michigan. Þar var þeim komið fyrir á sitthvorum staðnum.

Faðir þeirra, Elmer, flúði til Bandaríkjanna fyrir tveimur árum eftir líflátshótanir og segir að kona hans og börn hafi einnig neyðst til þess að flýja eftir að hafa borist hótanir.

Hann segir blaðamanni Guardian sögu fjölskyldunnar en að sögn Elmer hefur eiginkona hans, Evelin, glímt við mígreni og kvíðaraskanir. „Hún hefur gengið í gegnum helvíti,“ segir Elmer en Evelin er enn í haldi í Texas. Hann segir Evelin glíma við háan blóðþrýsting og verið mjög veika. 

AFP

Fyrir tveimur dögum fékk hann börnin til sín í Massachusetts eftir að hópur lögmanna í höfuðstað Texas, Austin, kom þeim til hjálpar. En Evelin er enn í haldi. Hann segist vonast til þess að hún fái að koma til þeirra innan tíðar. 

Efrén Olivares sem leiðir hóp lögmanna í Texas segir að á hverjum degi séu um 150 leiddir fyrir dómara í McAllen á dag. Allir fyrir minniháttar brot - að hafa komið til landsins með ólögmætum hætti. Af þeim eru um það bil 30 foreldrar barna sem hafa verið skilin að. 

Þar á meðal móðir frá El Salvador sem var skilin að frá heilasköðuðum syni sínum á unglingsaldri. Móðir frá Gvatemala sem er á barmi taugaáfalls eftir að dóttir henanr var tekin frá henni. Hún hefur ítrekað hótað sjálfsvígi. Önnur móðir sem hann hefur reynt að aðstoða var skilin að frá dóttur sinni á unglingsaldri en hún lifði af hrottalega árás, þar á meðal nauðgun.

Umfjöllun Guardian í heild

Börn á aldrei að setja í varðhald

Ravina Shamdasani, talskona mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, segir að ákvörðun bandarískra yfirvalda um að setja börn í varðhald með foreldrum sínum sé ekki rétta lausnin. „Börn á aldrei að setja í varðhald af þeirri ástæðu að þeir eða foreldrar þeirra eru með stöðu flóttafólks (migrants),“ sagði hún á fundi með blaðamönnum fyrr í dag. Aldrei eigi að setja barn í varðhald. 

Tilskipunin sem Donald Trump undirritaði í fyrrakvöld felur meðal annars í sér að hætt verði að sundra fjölskyldum og þeim haldið saman í varðhaldi. Stefnt er að því að reyna fá dómsúrskurði frá 1997, Flores samkomulagið, hnekkt en samkvæmt því má ekki halda börnum lengur en 20 daga í varðhaldi. Hvort heldur sem það er með eða án foreldra. 

AFP

Shamdasani segir þessa lausn fáránlega og stjórnvöld í Washington verði einfaldlega að finna betri lausn. Fyrst og fremst verði að gæta mannréttinda flóttafólksins, einkum og sér í lagi þar sem fjölskyldur og börn eiga í hlut. 

Hún segir að ekki eigi að koma fram við fólk sem er á flótta og kemur með ólögmætum hætti til Bandaríkjanna (Irregular migration - en skilgreiningu á hugtakinu á ensku má finna hér til hliðar í hnotskurn. Blaðamanni hefur ekki tekist að finna nógu góða skilgreiningu á íslensku sem nær yfir þetta hugtak) sem glæpamenn. 

Að hennar sögn hvetja Sameinuðu þjóðirnar bandarísk yfirvöld til þess að yfirfara stefnu sína í málefnum flóttafólks og hvetja ríkið til þess að finna annars konar lausn á því hvernig búið er að fólki sem þangað kemur. Talsmaður UNICEF, Christophe Boulierac, tekur í sama streng og segir að UNICEF sé alfarið á móti því að börn séu aðskilin frá fjölskyldum sínum sem úrræði til þess að stýra fólksflótta. Eins gagnrýni UNICEF að börn séu sett í varðhald.

Hann bendir á að Bandaríkin séu þar ekki ein því um 100 lönd víðsvegar um heiminn noti þetta sem stjórntæki til þess að stýra komu flóttafólks. 



T

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert