Lögregla skaut mann eftir innbrot

Lögregla og tæknideildarfólk á vettvangi utan við íbúðina í Skogn …
Lögregla og tæknideildarfólk á vettvangi utan við íbúðina í Skogn um sexleytið í morgun þar sem að lokum þurfti að grípa til þess örþrifaráðs að skjóta mann í fótinn en tveir aðrir lágu óvígir af stungusárum, annar þeirra alvarlega sár. Ljósmynd/Helene Solheim/NRK

Sveitarfélagið Levanger í Innherred í Þrændalögum í Noregi er þekkt fyrir margt annað en innbrot, hnífabardaga og lögreglu með brugðin skotvopn, en í nótt og í morgun kom allt framangreint Levanger og hinu smávaxna þéttbýli Skogn rækilega á kort norskra fjölmiðla.

Þessi sérstaka atburðarás hófst klukkan 03:30 í nótt, 01:30 að íslenskum tíma, þegar tilkynning barst um að pallbíl hefði verið bakkað gegnum dyr gullsmíðaverslunar í Levanger. Lögregla mætti á staðinn og hóf vettvangsrannsókn en laust fyrir klukkan sex í morgun, fjögur á Íslandi, barst henni tilkynning um hávaða og meint slagsmál í íbúð í Skogn.

Þegar lögregla kom á vettvang í Skogn varð fljótt ljóst að alvarleg átök höfðu brotist út og var þar maður á þrítugsaldri með alvarlega hnífstunguáverka og annar, á svipuðum aldri, með áverka eftir hníf sem voru þó sýnu vægari.

Af vettvangi í morgun.
Af vettvangi í morgun. Ljósmynd/Jørgen Hjelmsøy

Þriðji aðili á staðnum hafði í frammi ógnandi tilburði við lögreglu og gerði sig líklegan til að ráðast að fjölmennu lögregluliði vopnaður hníf en lögregla dró þá upp skotvopn og skaut manninn í fótlegg til að stöðva hann. Náðist eftir það stjórn á honum og voru allir þrír fluttir á sjúkrahús.

Ebbe Kimo, aðgerðastjóri lögreglunnar í Levanger, segir í samtali við Dagbladet að ekki sé enn sem komið er vitað um tengsl milli atburðanna tveggja, innbrotsins hjá gullsmiðnum í Levanger og hnífstungnanna í Skogn, en það sé nú rannsakað.

Nágranni hnífstunguvettvangsins, sem kaus að láta nafns síns ógetið, lýsti atburðarásinni þar í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK og hafði meðal annars þetta að segja:

(NRK: Heyrðirðu skothvelli?)

„Já, ég heyrði þá greinilega, ég var milli svefns og vöku.“

(NRK: Þannig að þú vaknaðir við skothvelli?)

„Þeir voru alveg skerandi. Fullt af lögregluþjónum kom á staðinn og hlupu sumir þeirra við fót. Þeir voru þó búnir að vera þarna dágóða stund áður en tók að hitna í kolunum.“

Nágranninn segir svo frá því að lögreglumenn hafi hlaupið inn og út úr íbúðinni þar sem átökin áttu sér stað: „Ég held að lögreglumaður hafi hlaupið út og náð í skammbyssu [sem norska lögreglan geymir oftast í læstri hirslu í lögreglubílum] eftir að ég heyrði fyrsta hvellinn. Svo hljóp hann inn aftur og þá heyrðist annar hvellur. [...] Ég sá mann koma út, beran að ofan. Hann var snúinn niður á tröppunum og var blóðugur,“ sagði nágranninn.

NRK ræddi einnig við Brit Laila Nyborg í Skogn en henni segist svo frá að sonur hennar hafi hringt felmtri sleginn frá Þrándheimi og beðið hana að koma sér í skjól. „Það setur að manni óhug að vita að svona nokkuð gerist í þessum rólegheitabæ sem Skogn er,“ sagði Nyborg.

Lögregla rannsakar nú bæði málin, gullinnbrotið og hnífstungurnar, og reynir að komast til botns í því hvort tengsl séu þar á milli en annar eins atgangur hefur ekki orðið í Levanger og nágrenni í háa herrans tíð.

Þess má geta til fróðleiks að margir þeirra Norðmanna sem námu land á Íslandi fyrir meira en þúsund árum komu frá Innherred og svæðunum þar í kring í Þrændalögum og þar er enn þann dag í dag töluð sú norska mállýska sem þykir svipa einna mest til íslensku.

Aðrar fréttir af málinu en þær sem vísað hefur verið í:

Frá Adresseavisen

Frá Innherred

Frá VG

Frá Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert