Morðin talin tengjast

Tæknirannsókn lögreglunnar í Malmö á mánudagskvöldið.
Tæknirannsókn lögreglunnar í Malmö á mánudagskvöldið. AFP

Nokkrir eru í haldi lögreglunnar í Malmö vegna skotárása í vikunni. Þrír voru skotnir til bana á mánudagskvöldið og einn í gærkvöldi. Samkvæmt frétt Aftonbladet bendir ýmislegt til þess að árásirnar tengist en á þriðjudag greindi lögregla frá því að skipulögð glæpasamtök hefðu verið að verki.

Heimildir Aftonbladet og SVT Nyheter herma að um tengsl sé að ræða á milli árásarinnar sem var gerð fyrir utan netkaffihús í miðborg Malmö á mánudagskvöldið en þar létust þrír, 19, 27 og 29 ára. Þrír særðust í þeirri árás. Árásin í gærkvöldi var gerð um tíuleytið og girti lögregla af svæðið í kringum árásarsvæðið. Jafnframt var mikill öryggisviðbúnaður á sjúkrahúsinu þar sem 24 ára gamall maður lést af völdum áverka sem hann hlaut í árásinni.

Snemma í morgun voru tálmar lögreglu fjarlægðir af vettvangi árásarinnar í Lindängen en hún er rannsökuð sem morð.

Anna Göranson lögreglukona í Malmö staðfestir handtökur við Aftonbladet en neitar að upplýsa frekar um málið að svo stöddu. 

Allir þeir sem urðu fyrir skotum í árásinni á mánudagskvöldið, sex talsins, tengjast skipulagðri glæpastarfsemi í Malmö. Samkvæmt frétt Sydsvenskan tengist árásin einnig átökum milli glæpagengja í Malmö.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert