Börnin enn í biðstöðu

Örlög 2.300 barna sem tekin voru frá foreldrum sínum við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó á nokkurra vikna tímabili í maí og júní eru enn óljós, þremur dögum eftir að Bandaríkjaforseti skrifaði undir tilskipun þess efnis að ekki ætti að aðskilja fjölskyldur við landamærin. Donald Trump hefur sakað demókrata um að búa til „falskar“ frásagnir af þjáningum til að auka við fylgi sitt.

Stofnanir bandaríska ríkisins hafa ekki getað staðfest hvað muni taka við hjá börnunum sem höfðu verið aðskilin frá foreldrum sínum áður en tilskipun forsetans var gefin út. 

Trump segir að þrátt fyrir að hann telji að ekki eigi að sundra fjölskyldum við landamærin héldi hann stefnu sinni í innflytjendamálum til streitu. „Ekkert umburðarlyndi“ er slagorð þeirrar stefnu sem miðar að því að hefta flæði fólks frá Mið-Ameríku til Bandaríkjanna. 

„Við þurfum að viðhalda sterkum landamærum í suðri. Við getum ekki leyft það að ólöglegir innflytjendur flæði yfir landið okkar á meðan demókratar segja sínar fölsku sögur af sorg í þeirri við að það hjálpi þeim að vinna kosningarnar,“ skrifaði Trump á Twitter í gær. 

Tímaritið Time segir að Bandaríkjaher sé að undirbúa opnun fangelsa í afviknum herstöðvum þar sem tugum þúsunda innflytjenda verður haldið. 

Trump mun því engan afslátt gefa af innflytjendastefnu sinni og til að leggja áherslu á mál sitt átti hann fund í Hvíta húsinu með foreldrum manna sem sagðir eru hafa verið drepnir af óskráðum innflytjendum. Sagði Trump að foreldrarnir væru aðskildir frá ástvinum sínum til frambúðar og notaði þar með sömu orð og gagnrýnendur hans hafa notað yfir aðgerðirnar við landamærin að Mexíkó.

Lögmenn sem vinna að því að reyna að sameina á ný fjölskyldur sem hefur verið sundrað við landamærin segja þrautinni þyngra að vinna sig í gegnum það völdunarhús sem kerfið er orðið að þessu leyti.

„Það er mjög erfitt að sameina börn og foreldra þeirra vegna þess að ríkisstofnanir eru ekki undirbúnar, þær eru ekki hannaðar fyrir sundrun fjölskyldna,“ segir Efren Olivares, lögmaður hjá mannréttindasamtökum í Texas. Skjólstæðingar hans eru tæplega 400 foreldrar.

Foreldrar flýja með börn sín undan fátækt í Gvatemala, El …
Foreldrar flýja með börn sín undan fátækt í Gvatemala, El Salvador og víðar. AFP

Svo virðist sem einhverjar fjölskyldusameiningar hafi orðið en fréttamenn vestanhafs hafa ekki getað fengið staðfest hvort þar er að ræða um 700 börn sem tekin voru frá foreldrum sínum á tímabilinu október til apríl eða þau 2.300 sem aðskilin voru frá foreldrum sínum í maí og júní. 

 Ein kona, Cindy Madrid frá El Salvador, lagði áherslu á að kenna sex ára dóttur sinni símanúmerið hjá frænku barnsins í Bandaríkjunum áður en þær mæðgur fóru yfir landamærin þar sem þær voru svo aðskildar. 

Litla stúlkan er ein af þeim sem má heyra gráta og endurtaka símanúmer frænku sinnar í sífellu á upptöku úr fangageymslunum sem birtar hafa verið opinberlega. 

„Þetta gerir mig brjálaða. Á hverju andartaki spyr ég mig: Hvernig hefur hún það? Hefur hún borðað? Eru þau að passa upp á hana? Fær hún að fara í sturtu?“ sagði móðir stúlkunnar í samtali við CNN. 

Margir þingmenn Demókrataflokksins hafa heimsótt fangageymslur þar sem börn eru geymd síðustu daga. Í kjölfar þeirra heimsókna ákváðu repúblikanarnir Marco Rubio og Ted Cruz að gera slíkt hið sama. „Það verður ekki einfalt að hýsa fjölskyldur saman en við verðum að gera það,“ sagði Rubio eftir heimsókn sína í búðir í Homestead í Flórída. „Því við getum ekki snúa til baka í þá stefnu að annað hvort sundra fjölskyldum eða að sleppa öllum.“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Tugir þúsunda fólks frá Gvatemala, Hondúras, El Salvador og ákveðnum svæðum Mexíkó hafa komið yfir landamærin til Bandaríkjanna frá því á síðasta ári og sótt um hæli. Fólkið á það flest sameiginlegt að vera að flýja mikla fátækt. 

„Við sjáum það ekki sem möguleika að snúa til baka,“ segir Jose Abel Mendez, 28 ára, sem kom ásamt eiginkonu sinni og þremur börn frá El Salvador til Tijuana í Mexíkó. Hann hyggst freista þess að setjast að í Bandaríkjunum. Fjölskyldan hefur beðið í yfir tvær vikur eftir því að geta sótt formlega um hæli í Bandaríkjunum. Vegna þessara miklu tafa þá freista þess margir að fara ólöglega inn í landið.

Forsíða tímaritsins Time hefur vakið gríðarlega athygli.
Forsíða tímaritsins Time hefur vakið gríðarlega athygli. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert