Horfði á Hulu undir stýri

Leigubíll frá Uber.
Leigubíll frá Uber. AFP

Ökumaður sjálfkeyrandi Uber-bílsins, sem ók á gangandi vegfaranda í Arizona með þeim afleiðingum að hann lét lífið, gæti hafa komið í veg fyrir áreksturinn ef hann hefði ekki verið annars hugar við stýrið samkvæmt rannsókn lögreglu. Financial Times greinir frá.

Rannsókn lögreglunnar í Tempe í Arizona leiddi í ljós að ökumaður bílsins, Rafaela Vasquez, gæti hafa verið að horfa á streymisveituna Hulu í aðdraganda árekstursins. Bíllinn var stilltur á sjálfstýringu en ökumaðurinn átti að vera til öryggis. Talið er að atvikið sé það fyrsta þar sem sjálfkeyrandi bíll keyrir á gangandi vegfaranda með þeim afleiðingum að hann lætur lífið.

Slysið varð til þess að Uber stöðvaði tilraunir með notkun sjálfkeyrandi bíla og hefur vakið upp spurningar um öryggi sjálfkeyrslukerfis þeirra og hlutverk ökumanns í sjálfkeyrandi bílum en honum er ætlað að taka stjórn á akstrinum í neyðartilvikum.

Vanræksla mögulega orsök

„Áreksturinn hefði ekki átt sér stað ef Vasquez hefði sinn eftirliti með bílnum og aðstæðum á veginum og hefði ekki verið annars hugar,“ segir í skýrslu lögreglunnar.

Upplýsingar sem lögreglan aflaði frá Hulu gefa til kynna að einhver hafi verið að nota aðgang Vasquez til að horfa á raunveruleikaþáttinn The Voice rétt fyrir áreksturinn og hætt því á um það bil á sama tíma og slysið varð.

Í skýrslu lögreglunnar segir einnig að eftirtektarleysi Vasquez með veginum og vanræksla hennar á hlutverki sínu sem öryggisbílstjóri (e. Safety driver) til að grípa inn í hættulegar aðstæður hafi mögulega stuðlað að árekstrinum auk þess sem vegfarandinn, Elaine Herzberg, hafi reitt hjólið sitt yfir götuna á svæði sem var ekki merkt sem gangbraut.

Rannsakendur telja að Vasquez hefði getað stöðvað bílinn um það bil 13 metrum fyrir áreksturinn ef hún hefði verið að horfa á veginn. Rafaela Vasquez sagði lögreglu að vegarandinn hefði „birst upp úr þurru“.

Rannsókn hefur leitt í ljós að öryggiskerfi bílsins hafi ekki greint hættuna og nauðsyn þess að bremsa fyrr en um einni sekúndu fyrir áreksturinn þrátt fyrir að það hafi skynjað mögulega hættu um sex sekúndum áður. Engin viðvörun barst frá kerfinu til bílstjórans um að hann gæti þurft að taka við stjórn bílsins.

Uber hefur bannað öryggisbílstjórum sínum að nota síma frá því að tilraunir með sjálfkeyrandi bíla hófust árið 2016. Það er þó engin búnaður sem gengur úr skugga um að bílstjórarnir fari eftir settum reglum á meðan ökuferð stendur yfir heldur þarf að skoða myndband úr öryggismyndavél bílsins eftir að henni lýkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert