Íbúarnir keyptu eyjuna

Síðustu íbúarnir á skosku eyjunni Ulva heita því að styrkja samfélagið á ný eftir að þeir söfnuðu 4,5 milljónum punda, um 650 milljónum króna, til að kaupa eyjuna af aðalsmönnunum sem áttu hana. 

Íbúarnir fimm, sem leigðu áður á eyjunni Ulvu, töldu að þeir yrðu að yfirgefa heimahagana eftir að eyjan var sett á sölu nýverið. Hún hafði þá í áratugi verið í eigu Howard-fjölskyldunnar. En þeim tókst að fresta sölunni með tilvísun í ný skosk lög og á þeim tíma náði þeir að safna nægum peningum, m.a. með því að þiggja framlög frá einkaaðilum, til að kaup eyjuna sjálfir.

Munro-fjölskyldan og nágranni þeirra, barry George, héldu veislu af þessu tilefni á eyjunni á fimmtudag. Til hennar buðu þeir stuðningsmönnum sínum, ástvinum og íbúum á eyjunni Mull sem er í næsta nágrenni. 

Rebecca Munro segir í samtali við AFP að skosk ríkisstofnun hafi veitt veglegan styrk til kaupanna á eyjunni. Um er að ræða stofnun sem hjálpar brothættum byggðum og íbúum að kaupa jarðir.

„Við fengum einnig gjafir frá öllum heimshornum,“ segir hún. 

Fyrrverandi eigandi eyjunnar, Jamie Howard, auglýsti hana til sölu og í kjölfarið flykktust þangað áhugasamir auðjöfrar sem vildu gjarnan eignast sína eigin eyju. 

„Þegar við sáum þyrlurnar koma þá urðum við áhyggjum full um að einhver myndi kaupa hana og loka henni og vildu ekki hafa okkur hér áfram,“ segir Munro.

Barry George, sem hefur búið á eyjunni í 22 ár, segir hana einstaklega fallega og að mikil synd hefði verið ef íbúabyggð þar myndi leggjast alfarið af. „Ég vil að hún sé í byggð svo að fólk geti komið hingað og séð það sem ég sé.“

Frá eyjunni Ulvu sést til Ben More-fjallanna og í næsta nágrenni er hinn þekkti foss, Eas Fors á eyjunni Mull. 

Eitt sinn bjuggu þar um 800 manns en nú eru þar mörg tóm hús, yfirgefin kirkja og gistiheimili sem mega muna fífil sinn fegri.

„Við erum ekki að fara að sjá svona íbúatölur aftur en við viljum byggja upp heilbrigt samfélag og við munum hefjast handa við það þegar í stað,“ segir Rhuri Munro sem býr á eyjunni og sækir þaðan sjóinn.

Fólksfækkunina má rekja til atburða sem urðu á átjándu öld er landeigendur ráku leigjendum af löndum sínum til að nýta þau fyrir beitilönd fyrir sauðfé. Á þessum tíma fluttu margir Skotar til nýlendna Breta víða um heim. Þannig varð einn íbúi Ulvu ríkisstjóri Ástralíu á nítjándu öld. 

Stjórnvöld í Skotlandi segjast tilbúin að styðja dreifbýl og afskekkt samfélög svo þau geti dafnað á nýjan leik. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert