Sjófuglar fullir af plasti

Kafari að störfum við eyjuna Lord Howe.
Kafari að störfum við eyjuna Lord Howe. AFP

Nýtt myndefni sem BBC hefur aflað sýnir hræðilegar afleiðingar plastmengunar í hafinu á sjófugla. Fuglar á hinni afskekktu eyju Lord Howe eru að svelta og verður fjallað um málið í heimildarþáttunum Drowning in Plastic á BBC One. Í maga fuglanna fannst svo mikið plast að ekkert pláss var fyrir mat, segir í frétt á vef BBC um málið.

BBC er meðal þeirra fjölmiðla sem fjalla nú ýtarlega um þá miklu mengun sem er í hafinu og hættu sem lífríki heimsins stafar af henni.

Eyjan Lord Howe er undan ströndum Ástralíu. Þar eru líffræðingar að störfum við það að reyna að bjarga sjófuglunum. Líffræðingurinn Jennifer Lavers bendir á að sjófuglarnir éti nánast hvað sem er og þegar sjórinn er fullur af plasti „veiði“ þeir það handa ungum sínum. 

Líffræðingarnir hafa verið að handsama fuglana er þeir fara úr hreiðrum sínum og skola út maga þeirra til að reyna að bjarga þeim. Aðferðin skaðar ekki fuglinn.

Fréttamaðurinn Liz Bonnin, sem er umsjónarmaður heimildarþáttanna, segir þetta eitt það erfiðasta sem hún hafi upplifað á ferli sínum. „Við sáum um 90 plasthluti koma upp úr einum unga annað kvöldið okkar þarna,“ útskýrir hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert