Myndi vísa henni út á ný

Red Hen er lítið veitingahús í smábæ í Virginíu. Þaðan …
Red Hen er lítið veitingahús í smábæ í Virginíu. Þaðan var Söruh Sanders blaðafulltrúa vísað á dyr.

Eigandi litla veitingastaðarins í Lexington í Virginíuríki sem vísaði blaðafulltrúa Donalds Trump á dyr í gær sér ekki eftir neinu og myndi vísa Söruh Sanders aftur út ef hún kæmi  á staðinn.

„Ég er ekki mikill aðdáandi átaka,“ segir Stephanie Wilkinson, eigandi veitingastaðarins Red Hen í samtali við Washington Post. „Ég rek fyrirtæki og ég vil að þetta fyrirtæki blómstri. Við stöndum á tímamótum í lýðræði okkar þegar fólk verður að grípa til óþægilegra aðgerða og ákvarðana til að halda í siðferði sitt.“

Wilkinson var heima hjá sér á föstudagskvöldið er hún fékk símtal frá kokki veitingastaðarins þar sem hann tilkynnti henni að Sanders hefði sest við eitt borð staðarins. Wilkinson furðaði sig á því að blaðafulltrúinn hefði valið að koma inn á pínulítinn veitingastað í yfir 300 kílómetra fjarlægð frá Hvíta húsinu. En hún vissi eitt: Íbúar Lexington eru sjöþúsund og þeir höfðu að miklum meirihluta hafnað Trump í forsetakosningunum. Hún vissi einnig að samfélagið hefði klofnað vegna skiptra skoðana um minnismerki tengd þrælastríðinu, s.s. fána suðurríkjanna. Og hún trúði því að Sanders ynni fyrir ómannúðleg stjórnvöld. 

Á Red Hen (Rauðu hænunni) eru 26 borð og Sanders sat þar ásamt sjö öðrum og fyrir framan þau var ostabakki.

Bar málið undir starfsmenn sína

Wilkinson segir í viðtalinu að nokkrir af starfsmönnum veitingastaðarins séu samkynhneigðir og að þeir vissu að Sanders hefði stutt þær skoðanir Trumps að banna transfólki að sinna herþjónustu. Þá hafi allir starfsmennirnir fylgst með Sanders verja þá ákvörðun Trumps að sundra fjölskyldum flóttafólks og setja börn þeirra í sérstakar búðir. Wilkinson segist því hafa spurt starfsfólk sitt hvað það vildi að hún gerði, hvort það vildi að hún vísaði Sanders á dyr. Og svarið var já. 

Wilkinson segir það mikilvægt í sínum huga að áður en hún greip til aðgerða hafi Sanders fengið þjónustu og einnig telur hún mikilvægt að Sanders sé opinber persóna, ekki aðeins einhver manneskja úti í bæ sem hún sé ósammála.

Hún gekk upp að henni og sagði: „Ég er eigandinn. Viltu koma út á verönd með mér og ræða við mig.“

Stressuð en kurteis

Wilkinson segist hafa verið stressuð, hún hafi þó getað verið kurteis og komið þeim skilaboðum áleiðis að veitingastaðurinn teldi heiðarleika, samúð og samvinnu mikilvæga. Svo sagði hún: „Ég ætla að biðja þig að fara.“

Sanders mótmælti ekki að sögn Wilkinson og sagðist ætla að fara. Hún hafi gengið að borði sínu, náð í dótið sitt og yfirgefið staðinn. Samferðafólk hennar gerði slíkt hið sama. Þau hafi boðist til að borga en Wilkinson sagði það óþarfa. 

Sanders sagði svo frá því á Twitter í kjölfarið að henni hefði verið vísað á dyr á veitingastaðnum. 

Mjög skiptar skoðanir eru um ákvörðun eiganda Rauðu hænunnar að vísa Sanders á dyr. Sumir hafa gefið staðnum fimm stjörnur á síðunni Yelp vegna málsins en aðrir eru allt öðru máli. Um 2.000 manns, sem líklega hafa aldrei stigið fæti inn á veitingastaðinn, hafa gefið honum umsögn á Yelp frá því að atvikið kom upp.

Sumir hafa ekið fram hjá veitingastaðnum og púað hátt og snjallt. Aðrir hafa lagt þar blóm og skrifað á miða: „Lýðræðið þarf sannfæringu. Takk Red Hen!“

Wilkinson sér ekki eftir neinu. Hún segir tími til kominn að fólk standi með sannfæringu sinni. Þetta hafi verið eitt slíkt augnablik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert