Erdogan eiginlegur einræðisherra

Erdogan rétt áður en hann flutti sigurræðu sína.
Erdogan rétt áður en hann flutti sigurræðu sína. AFP

Recep Tayyip Er­dog­an, sem hlaut endurkjör sem forseti Tyrklands í forseta- og þingkosningum sem fram fóru í landinu í gær, er nú mun valdameiri en hann var áður.

Erdogan boðaði óvænt til kosninganna í apríl til þess að tryggja hraða innleiðslu nýs stjórnarfars í landinu. 

Með breytingunum er vald þingsins veikt og embætti forsætisráðherra hefur verið lagt af. Þessar breytingar á stjórnarskrá landsins voru samþykktar á síðasta ári en voru engu að síður mjög umdeildar, enda aukast völd forsetans umtalsvert að sögn BBC.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og Evrópusambandið hafa bæði fordæmt kosningarnar og sagt þær ósanngjarnar. Andstæðingur Erdogan í kosningunum, Muharrem Ince sem hlaut næst flest atkvæði, segir Tyrkland á hættulegum tímamótum og að nú fari í hönd eins manns stjórnartíð.

Erdogan er umdeildur en hann hefur beitt stjórnarandstæðinga mikilli hörku og talið er að um 160 þúsund manns hafi verið fangelsaðir á undanförnum árum. Hins vegar hefur efnahagur landsins batnað til muna í stjórnartíð Erdogan og hafa yfirvöld fjárfest í innviðum á borð við heilbrigðisþjónustu og menntun.

Í sigurræðu sinni kvaðst Erdogan ætla að innleiða nýja hætti forsetaembættisins hratt og örugglega. Stjórnarskrárbreytingin sem hlaut 51% atkvæða á síðasta ári gerir Erdogan kleift að ráða háttsetta embættismenn, þar á meðal ráðherra og varaforseta, milliliðalaust, hafa afskipti af réttarkerfinu og lýsa yfir neyðarástandi. Þá má forsetinn bjóða sig fram til síns þriðja kjörtímabils samkvæmt breytingunum og gæti því verið forseti Tyrklands til 2028.

Erdogan hefur sagt að aukin völd geri honum kleift að taka á efnahagslegum vandkvæðum landsins og sigrast á uppreisnarmönnum Kúrda í suðausturhluta landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert