Hundunum í Tsjernobyl fundin heimili

Sjálfboðaliði með hvolp í fanginu. Hvolpurinn fannst í námunda við …
Sjálfboðaliði með hvolp í fanginu. Hvolpurinn fannst í námunda við kjarnorkuverkið í Tsjernobyl. AFP

Það er nær grafarþögn á bannsvæðinu umhverfis Tsjernobyl en frá einni byggingunni á vettvangi mesta kjarnorkuslyss sem orðið hefur í heiminum heyrist gelt og ýlfur.

Eftir slysið árið 1986 þjónaði hin langa bygging, sem er á einni hæð, hlutverki sjúkrahúss fyrir starfsmenn kjarnorkuversins. Í dag er þar dýraspítali fyrir flækingshunda sem er að finna í hundruðavís innan bannsvæðisins, löngu eftir að mannfólki var gert að yfirgefa svæðið í kjölfar eiturefnalekans mikla. 

Bandaríkjamaðurinn Lucas Hixson kom fyrst til Tsjernobyl í Úkraínu árið 2013 vegna starfs síns sem geislafræðingur. Í kjölfarið setti hann á stofn samtökin Hundarnir í Tsjernobyl sem sjá um að veita flækingshundunum læknishjálp og finna þeim svo heimili. Það hafði komið honum á óvart hversu margir hundar væru á flækingi um svæðið. 

Lucas Hixson klappar flækingshundi sem hefst við innan bannsvæðisins í …
Lucas Hixson klappar flækingshundi sem hefst við innan bannsvæðisins í Tsjernobyl. AFP

Hixson er mikill hundavinur og tók sjálfur að sér einn hund árið 2017. Sá fékk nafnið Dva sem þýðir „tveir“ þar sem þetta var annar hundur Tsjernobyl sem fundið var heimili. Báðir hundarnir voru fluttir til Bandaríkjanna. 

„Eitt af því fyrsta sem þú tekur eftir þegar þú kemur að verksmiðjunni eru hundarnir,“ segir hann. „Hundar geta ekki lesið viðvörunarskiltin. Þeir hlaupa um og fara þangað sem þá langar.“

Um þúsund flækingsfundar halda til innan bannsvæðisins þar sem mannfólki er enn bannað að búa. Um 150 þeirra halda til við verksmiðjuna sjálfa, um 300 eru í borginni Tsjernobyl og hinir flækjast um við eftirlitsstöðvar, á gömlu slökkvistöðinni og í þorpum í nágrenninu. 

Hvolparnir eru heilbrigðir. Þeir dvelja á dýrapsítala í Tsjernobyl áður …
Hvolparnir eru heilbrigðir. Þeir dvelja á dýrapsítala í Tsjernobyl áður en þeir eru svo fluttir til bæjar í nágrenninu og þaðan til Bandaríkjanna. AFP

Þessir hundar hafa því lifað af marga harða vetur með tilheyrandi snjó og rigningu svo ekki sé talað um sjúkdóma og hættu sem stafar af geislavirkni.  Og á meðan hið villta dýralíf blómstrar á þessum mannlausa stað hefur enn ein hættan bæst við: Úlfar.

Á dýraspítalanum eru nú fimmtán hvolpar og eftir að hafa gengist undir læknisskoðun verða þeir fluttir til borgarinnar Slavutych sem er í um fimmtíu kílómetra fjarlægð frá Tsjernobyl. Sú borg var að mestu byggð í kjölfar slyssins fyrir fólk sem flutt var af svæðinu.

 Þar verða hvolparnir í nokkrar vikur en í kjölfarið verða þeir fluttir til nýrra heimkynna sína í Bandaríkjunum. 

Á spítalanum eru hundarnir bólusettir og fá almenna læknisaðstoð.
Á spítalanum eru hundarnir bólusettir og fá almenna læknisaðstoð. AFP

Samtökin sem standa að flutningnum munu sjá um að finna eigendur og aðstoða hundana við að aðlagast lífinu vestanhafs. 

Verkefnið Hundarnir í Tsjernobyl hófst á síðasta ári og miðar að því að finna ungum hundum heimili í Bandaríkjunum. Eldri hundar eru handsamaðir, bólusettir og geldir og svo sleppt að nýju á það svæði sem þeir hafa alist upp á. 

Þeir sem hafa áhuga á að ættleiða hundana þurfa að fylla út eyðublöð á netinu og koma svo í viðtöl og eiga jafnvel von á því að sjálfboðaliðar samtakanna taki út heimili þeirra. Vandað er til verka við að finna fjölskyldur handa hundunum.

Og margir hafa sýnt þessu áhuga. Um 300 manns hafa óskað eftir að taka um 200 hunda frá Tsjernobyl að sér á aðeins stuttum tíma, að sögn Hixsons.

Sjálfboðaliði fyllir á vatnsskálar fyrir flækingshundana í Tsjernobyl.
Sjálfboðaliði fyllir á vatnsskálar fyrir flækingshundana í Tsjernobyl. AFP

„Þessi er næstum orðin bandarískur ríkisborgari,“ segir Nataliya Melnychuk, hundaþjálfari í athvarfinu í Slavutych. Við hlið hennar er svartur og hvítur hvolpur sem verður senn fluttur til Chicago. 

Sjálfboðaliðarnir segja að sumir af eldri hundunum séu nánast orðnir villtir og því ekki hægt að setja þá inn á heimili. Þeir fá þó læknisaðstoð í sínu umhverfi og geta svo haldið áfram sínu venjubundna lífi í Tsjernobyl

 Engin geislavirkni hefur mælst í hvolpunum sem hafa verið handsamaðir en sömu sögu er ekki að segja af fullorðnu hundunum. Nokkrir þeirra hafa verið geislavirkir. „Við rannsökum alla hundana áður en þeir eru fluttir á spítalann,“ segir Hixson. Ef mengun hefur fundist eru hundarnir þvegnir og á þá sett sérstakt efni. Ef nauðsyn krefur er feldur þeirra rakaður. „Þegar þeim er sleppt eru þeir hreinir eins og hverjir aðrir hundar.“

Hópur sjálfboðaliða sinnir hundunum í Tsjernobyl.
Hópur sjálfboðaliða sinnir hundunum í Tsjernobyl. AFP

Nadiya Apolonova sem starfar með dýraverndunarsamtökum í Úkraínu segir að lífslíkur hundanna á svæðinu séu aðeins um fimm ár. Lífsbaráttan í vetrarveðrinu og vegna sjúkdóma er hörð. En fleira kemur til. 

Á síðustu árum hefur úlfum fjölgað mikið og bera þeir ábyrgð á um 30% dauðsfalla hjá hundunum í Tsjernobyl

Sjálfboðaliðar fara um svæðið og handsama hunda til að koma …
Sjálfboðaliðar fara um svæðið og handsama hunda til að koma þeim undir læknishendur. AFP

Sjálfboðaliðarnir sem sinna hundunum vonast til þess að verkefnið upplýsi fólk um ástandið í Tsjernobyl. „Það er margt sagt um Tsjernobyl sem á ekki við rök að styðjast,“ segir Hixson. „Fólk ímyndar sér að hér séu afmyndaðar skepnur en hvolparnir sem hér fæðast eru eins og aðrir hvolpar.“

Hann þagnar um stund og brosir. „Þetta eru heilbrigðustu og klárustu hundar sem ég hef nokkru sinni komist í tæri við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert