Tíu öfgamenn handteknir í Frakklandi

Franskir sérsveitarmenn að störfum í öðru máli en því sem …
Franskir sérsveitarmenn að störfum í öðru máli en því sem fjallað er um í fréttinni. AFP

Tíu öfgamenn voru handteknir í Frakklandi um helgina af sérsveit lögreglunnar en mennirnir voru að undirbúa árásir á múslíma í landinu. Af þeim voru tveir handteknir á Korsíku samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar en Le Monde segir að aðgerðir lögreglunnar hafi einnig farið fram í Gironde, Charente og víðar.

Mennirnir voru handteknir á laugardagskvöldið og í gær en þeir tilheyra öfgahópnum AFO  (Action des forces opérationnelles). Samkvæmt heimildum AFP voru þeir að undirbúa árásir á múslíma. Franska leyniþjónustan (DGSI) hafði fylgst með hópnum um hríð en liðsmenn hans hafa verið að kaupa vopn að undanförnu. Hald var lagt á einhver skotvopn í aðgerðum helgarinnar.

Alls búa 5,7 milljónir múslíma í Frakklandi eða um 9% af íbúum landsins. Heimildir TF1 sjónvarpsstöðvarinnar herma að þeir hafi ætlað að ráðast á klerka, íslamista sem verið er að láta lausa úr fangelsum, konur með slæður og múslíma sem þeir myndu velja af handarhófi á götum úti. 

Nokkir öfgahópar hafa verið upprættir í Frakklandi undanfarin ár en um er að ræða  hópa sem hafa það að markmiði að beita múslíma ofbeldi og hælisleitendur. Meðal þeirra handteknu er fyrrverandi lögreglumaður, Guy S.,  sem er búsettur í   Charente-Maritime. Hann er 65 ára gamall og kominn á eftirlaun. Hann er grunaður um að vera leiðtogi AFP hópsins. Þeir sem voru handteknir eru á aldrinum 32 til 69 ára, samkvæmt frétt Le Parisien.

Frétt Le Monde

Frétt Le Parisien

Frétt Corse Matin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert