Báru logandi kerti að kynfærum

Rústir húsa rohingja í þorpinu Warpait í Rakhine-héraði í Búrma.
Rústir húsa rohingja í þorpinu Warpait í Rakhine-héraði í Búrma. AFP

Logandi kerti borin af kynfærum. Vatnspyntingar. Hótanir um nauðganir. Barsmíðar. Þetta er meðal þeirra ásakana á hendur yfirmönnum í her Búrma sem Amnesty International greinir frá í nýrri skýrslu um meðferðina á rohingjum.

Samtökin saka þrettán yfirmenn hersins um gróft ofbeldi og glæpi gegn mannkyni. Þau segja að þeir hafi gert kerfisbundnar árásir gegn rohingjum. Skýrsla um málið kom út í dag. Samtökin krefjast þess að hershöfðingjarnir verði sóttir til saka fyrir alþjóðaglæpadómsstólnum.

Yfir 700 þúsund rohingjar hafa flúið frá Rakhine-héraði í Búrma til Bangladess eftir að það sem Amnesty Internastional kallar þjóðernishreinsanir hersins hófust. 

Rohingjar á flótta yfir árnar til Bangladess. Myndin er tekin …
Rohingjar á flótta yfir árnar til Bangladess. Myndin er tekin í október í fyrra. AFP

Herinn hefur neitað öllum slíkum ásökunum og segist vera að verja land sitt fyrir skæruliðum úr hópi rohingja sem hafi gert árás á eftirlitsstöðvar hersins í ágúst á síðasta ári.

Amnesty sakar helsta yfirmann hersins, Min Aung Hlaing, og tólf yfirmenn til viðbótar um þessa alvarlegu glæpi.

Þetta er í fyrsta skipti sem nöfn þeirra hershöfðingja, sem sagðir eru bera ábyrgð á ódæðunum, eru birt opinberlega, að því er segir í frétt AFP.

„Þjóðernishreinsanir á rohingjum voru framkvæmdar með kerfisbundum aðgerðum þar sem her Búrma drap þúsundir rohingja, meðal annars ung börn,“ segir í skýrslunni. Þar segir að ofbeldið hafi því ekki verið framið af „nokkrum stjórnlausum hermönnum“. 

Flóttafólk býr við erfiðar aðstæður í búðum í Bangladess.
Flóttafólk býr við erfiðar aðstæður í búðum í Bangladess. AFP

Hermenn eru einnig sakaðir um kynferðisofbeldi, pyntingar, ólögmætan brottrekstur og íkveikjur. Kveikt hafi verið í verslunum og ökrum sem hafi valdið sulti hjá rohingjum og þeir því neyðst til að flýja.  „Slíkir glæpir eru glæpir gegn mannkyni samkvæmt alþjóðalögum þar sem þeir voru framkvæmdir af umfangsmiklum og kerfisbundnum árásum gegn rohingjum.“

Samkvæmt skýrslunni voru það yfirmenn hersins sem stjórnuðu aðgerðunum. 

Skýrsla Amnesty International er byggð á viðtölum við yfir fjögur hundruð manns bæði í Bangladess og Búrma. Viðtölin voru tekin á tímabilinu september í fyrra þar til nú fyrir skömmu. Þá var stuðst við gervitunglamyndir af svæðinu, réttarmeinafræðilegar rannsóknir og trúnaðargögn frá hernum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert