Albanar og Makedónar í viðræður að ári

Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu ræðir við Daliu Grybauskaite, forsætisráðherra Litháen …
Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu ræðir við Daliu Grybauskaite, forsætisráðherra Litháen og Emmanuel Macron Frakklandsforseta, á fundi leiðtoga ESB-ríkja með leiðtogum Vestur-Balkanríkja í maí. AFP

Ríkisstjórnir Evrópusambandsríkjanna hafa ákveðið að seinka ákvörðun um hvort hefja á aðildarviðræður við Makedóníu og Albaníu til næsta árs.

Skiptar skoðanir voru á fundi Evrópuráðherra aðildarríkjanna sem fram fór í Lúxemborg á þriðjudag. Frakkar og Hollendingar hafa verið tregir til að hefja aðildarviðræður við ríkin og ákváðu, með stuðningi Dana, að halda afstöðu sinni óbreyttri um sinn, en þau vilja að frekari skref séu tekin í baráttunni gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi áður en til viðræðna kemur. Sérhvert aðildarríki ESB hefur neitunarvald þegar kemur að aðild nýs ríkis.

Eftir tíu klukkutíma fundarlotu ákváðu Evrópuráðherrarnir að stefnt skyldi að því að aðildarviðræður hefjist næsta sumar.

Mótmælandi í Tirana, höfuðborg Albaníu, veifar Evrópufánanum á fundi í …
Mótmælandi í Tirana, höfuðborg Albaníu, veifar Evrópufánanum á fundi í maí. Krafist var afsagnar innanríkisráðherra landsins en bróðir hans er sakaður um fíkniefnasmygl. AFP

Vonbiðlar í áratug

Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu 28. apríl 2008, þremur mánuðum á undan Íslandi, en Evrópusambandið hefur síðan þá sett marga fyrirvara við að viðræður geti hafist. Einkum má nefna aðgerðir á fimm sviðum, sem stækkunarstjóri Evrópusambandsins um, Johannes Hahn, útlistaði í bréfi til albanskra stjórnvalda í mars 2015: umbætur á opinberri stjórnsýslu, réttarríkinu og grundvallarréttindi þegna auk aðgerða til að taka á spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi.

Albönsk stjórnvöld hafa tekið markviss skref til að geðjast Evrópuríkjunum. Má þar nefna stjórnarskrárbreytingu árið 2016 þar sem skipan dómara er sett í hendur óháðrar dómnefndar erlendra fræðimanna, með það að markmiði að tryggja pólitískt hlutleysi þeirra. Þá verður skipan þeirra að hljóta stuðning aukins meirihluta, 2/3 hluta þingmanna.

Framkvæmdastjórn ESB lagði til í nóvember 2016 að aðildarviðræður skyldu hafnar en stjórnvöld í Þýskalandi tilkynntu þá að þau legðust gegn aðildarviðræðum þangað til 2018.

Þegar eru þrjú ríki í aðildarviðræðum við ESB, Svartfjallaland, Serbía og Tyrkland, en hið síðastnefnd hefur átt í viðræðum frá árinu 1978 og eru þær í raun frosnar.

Nafnadeilan frá?

Makedónía sótti um aðild að ESB árið 2005. Hindranir í vegi aðildarviðræðna hafa að mörgu leyti verið svipaðar og hjá Albönum. Stærsta hindrunin hefur þó verið einstök, en það er nafnadeila Grikklands og ríkisins, sem fullu nefnist formlega Fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía á alþjóðavettvangi.

Styr hef­ur staðið um nafnið eft­ir að Júgó­slav­ía, sem Makedónía tilheyrði, liðaðist í sund­ur. Í Grikklandi er hérað sem ber nafnið Makedónía og á landamæri að samnefndu ríki. Stjórnvöld í Grikklandi hafa lengi sakað hitt ríkið um að gera tilkall til arfleifðar Makedóníu-héraðsins með því að notast við nafnið. Þannig geri ríkið Makedónía mikið úr Alexander mikla og heita alþjóðaflugvöllur höfuðborgarinnar, verslunargötur og fótboltavellir í ríkinu eftir honum. Grikkir hafa krafist þess að ríkið láti af notkun nafnsins og á þeim forsendum beitt neitunarvaldi sínu gegn aðild Makedóníu-ríkis að ESB og NATO.

Forsætisráðherrar landanna tveggja með Federicu Mogherini, utanríkisstjóra ESB, og Johannes …
Forsætisráðherrar landanna tveggja með Federicu Mogherini, utanríkisstjóra ESB, og Johannes Hahn stækkunarstjóra. AFP

Með samkomulagi grískra og makedónskra stjórnvalda, sem undirritað var í mánuðinum, er þó útlit fyrir að bundinn sé endi á hið áralanga deilumál. Þar fallast Makedónar á að opinberu nafni ríkisins verði breytt í Lýðveldi Norður-Makedóníu, auk léttvægari aðgerða eins og að hætta að nefna flugvöllinn í höfuðið á Alexander mikla. Þá munu Grikkir styðja nágranna sína til aðildar að ESB.

Enn eiga þing ríkjanna tveggja þó eftir að samþykkja samkomulagið, sem forsætisráðherrarnir undirrituðu, auk þess sem boðað hefur verið til þjóðaratkvæðagreiðslu í ríkinu sem flestir kalla Makedóníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert